Erlent

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ekki samstíga

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna MYND/AP

Erfiðlega gengur að samræma stefnu innan Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, um hvernig skuli brugðist við eldflaugatilraunum Norður-Kóreumanna. Kínverjar vilja ekki ganga eins langt og Japanar og Bandaríkjamenn innan ráðsins.

Ef Kim Jong-il, leiðtogi Norður-Kóreumanna, vonaðist til að hrista upp í alþjóðasamfélaginu með eldflaugatilraunum sínum í síðustu viku er greinilegt að það hefur heppnast.

Eldflaugatilraunir Norður-Kóreumanna hafa verið fordæmdar um allan heim en ekki eru þó allir á eitt sáttir um til hvaða aðgerða eigi að grípa til þess að koma í veg fyrir frekari kjarnorkutilraunir Norður-Kóreumanna.

Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar styðja tillögu Japana um að taka upp refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreumönnum. Tillagan þess efnis var þó ekki borin upp í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær eins og til stóð.

Kínverjar og Suður-Kóreumenn vilja frekar sjá hógværari aðgerðir og kynnti sendiherra Kínverja Öryggisráðinu í gær tillögu þar sem ríki heims hvött til að standa ekki í viðskiptum við Norður-Kóreumenn með ýmsan tæknibúnað í stað þess að blátt bann verði lagt við slíkum viðskiptum eins og Japanir vilja.

 

Talið er að hvorki Kínverjar né Rússar, sem hafa neitunarvald í Öryggisráðinu, muni samþykkja harðar refisaðgerðir gegn Norður-Kóreu. Þess í stað hallast Kínverjar að því að leysa málið með viðræðum við ráðamenn í Pyongyang og vilja þeir þrýsta á þá að setjast að samningaborðinu og ræða um kjarnorkuáætlun sína. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt að Bandaríkjamenn séu tilbúnir að reyna á þá leið áður en gripið verði til aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×