Erlent

Kallar eftir friði

Mynd/Reuters

Á aðeins tveimur dögum hafa meira en þrjátíu Palestínumenn fallið á Gaza og minnst einn ísraelskur hermaður. Svæðið hefur verið eins og púðurtunna og í morgun gerðu Ísraelsmenn enn eina loftárásina þar sem tveir Palestínumenn slösuðust lífshættulega. Þá brutust út skotbardagar á austurhluta Gaza í morgun og þrír Palestínumenn féllu í valinn.

Eitthvað virðist þó vera að birta til miðað við fréttir af svæðinun nú undir hádegið. Þannig segist Ísraelsher hafa dregið liðsafla sinn frá norðurhluta Gaza, aftur yfir landamærin til Ísraels. Hermenn óðu yfir landamærin seint á miðvikudagskvöld, en hafa semsagt snúið við núna. Ekki liggur fyrir af hverju það var tekin ákvörðun um að snúa herliðinu við, en ljóst er að það mun eitthvað slaka spennunni á svæðinu. Rétt áðan sagðist svo Ismayl Hanieh, forsætisráðherra Palestínu vonast til að báðir aðilar myndu hætta árásum. Þetta er stefnubreyting af hálfu ráðherrans, sem hingað til hefur verið mjög herskár í málflutningi. Abbas forseti fagnar væntanlega þessum ummælum, enda hefur hann hvað eftir annað reynt að miðla málum, en haft lítið erindi sem erfiði hingað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×