Erlent

Sautján látnir í átökum á Gaza í dag

MYND/AP

Að minnsta kosti sextán Palestínumenn féllu í árásum Ísraelshers á Gazasvæðið í kvöld. Herinn hefur fengið skipanir um að ráðast enn lengra inn á Gazasvæðið. Ofbeldið í dag er það mesta síðan Ísraelsher yfirgaf Gazasvæðið fyrir tæplega ári síðan.

Loftárásir voru gerðar á bæinn Beit Lahiya í kvöld og eru þær sagðar hafa orðið níu manns að bana. Ísraelsher segist hafa ráðist á herskáa Palestínumenn á svæðinu og drepið fjóra vopnaða menn. Í þorpinu áttu sér líka stað bardagar þar sem Palestínumenn skutu eldflaugum að skriðdrekum og þyrlum Ísraelsmanna. Samkvæmt Ísraelsher féllu sjö vopnaðir Palestínumenn í þeim átökum auk þess sem einn hermaður Ísraela var skotinn til bana á norðurhluta Gaza. Alls hafa því um sextán Palestínumenn látist í dag og einn Ísraelsmaður. Tíu Palestínumenn til viðbótar hafa fallið síðan innrásin hófst fyrir viku síðan. Íbúar Beit Lahiya hafast nú við innandyra á meðan skriðdrekar keyra um göturnar.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur skipað skriðdrekum að ráðast enn lengra inn á Gazasvæðið eftir að skæruliðar frá Hamas skutu eldflaugum inn í stóra ísraelska borg, Ashkelon, í gær og fyrradag. Ísraelsher hóf innrásina fyrir viku síðan til að freista þess að þrýsta á herskáa Palestínumenn að sleppa ungum ísraelskum hermanni sem þeir hafa í haldi. Innanríkisráðherra Palestínu hefur hvatt þarlendar öryggissveitir til að beita sér af öllum mætti gegn þessari huglausu innrás. Herinn hefur nú komið sér fyrir í rústum landtökubyggða gyðinga í norðurhluta Gaza og hyggst ekki hverfa á brott fyrr en takmarkinu er náð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×