Viðskipti erlent

Olíuverð fór í sögulegt hámark

Olíuborpallur.
Olíuborpallur. Mynd/AFP

Heimsmarkaðsverð á olíu náði sögulegu hámarki í gær í kjölfar tilraunaeldflaugaskots Norður-Kóreumanna á þriðjudag og vaxandi spennu vegna kjarnorkuáætlunar Írana. Tilraunir Norður-Kóreumanna urðu þess valdandi að fjárfestar héldu að sér höndum og lækkaði gengi hlutabréfa á helstu mörkuðum í Asíu og Evrópu.

Þá var kom fram í vikulegri skýrslu bandaríska orkumálaráðuneytisins í gær að umframbirgðir á olíu hefðu minnkað á milli vikna.

Verð á hráolíu, sem afhent verður í næsta mánuði, fór um tíma í gær í 75,15 Bandaríkjadali á tunnu en það er sögulegt hámark olíuverðs. Þegar leið á daginn lækkaði verðið og endaði það í 74,05 dölum á tunnu.

Þá hækkaði verð á Norðursjávarolíu, sem afhent verður í ágúst, um 7 sent á mörkuðum í Lundúnum í Bretlandi og fór í 74,05 Bandaríkjadali á tunnu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×