Erlent

Koizumi er kóngurinn

Koizumi lumar á töktum.
Koizumi lumar á töktum. MYND/AP

Í gær lauk tveggja daga heimsókn Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, til Bandaríkjanna, þar sem þeir George Bush skeggræddu eldflaugatilraunir Norður-Kóreu, hernaðinn í Írak og útflutning nautakjöts, svo fátt eitt sé nefnt. Hápunktur ferðarinnar var samt för þeirra félaga til Graceland í Memphis. Þar lifði Elvis Presley í miklum vellystingum en hann er í miklum metum hjá Koizumi. Forsætisráðherran lét sig ekki muna um að taka nokkrar strófur úr helstu lögum átrúnaðargoðsins.

Eftir þessa stuttu en athyglisverðu syrpu Koizumis skoðuðu þeir Bush híbýli kóngsins og nokkra muni úr eigu hans í fylgd Priscillu og Lisu Marie, ekkju hans og dóttur. Koizumi var í sjöunda himni að heimsókninni lokinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×