Erlent

Fíkniefnaneysla vex stöðugt

Stjórnvöld í Mjanmar notuðu tækifærið í gær og brenndu eiturlyfjum í stórum stíl.
Stjórnvöld í Mjanmar notuðu tækifærið í gær og brenndu eiturlyfjum í stórum stíl. MYND/AP

Rúmlega 160 milljónir jarðarbúa reykja kannabisefni að staðaldri, enda þótt efnið sé orðið mun hættulegra en áður. Ríkisstjórnir Evrópu skella skollaeyrum við sívaxandi kókaínneyslu íbúa álfunnar. Þetta er fullyrt í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefnavandann.

Alþjóðlegur baráttudagur gegn eiturlyfjaneyslu var haldinn um heim allan í vikunni og af því tilefni birti Fíknivarnastofnun Sameinuðu þjóðanna árskýrslu sína. Samkvæmt henni virðist stofnunin eiga erfitt verk fyrir höndum því íbúar jarðar neyta fíkniefna sem aldrei fyrr. 162 milljónir jarðarbúa reykja hass eða marjúana á hverjum degi og segja skýrsluhöfundar það sérstakt áhyggjuefni því þau kannabisefni sem nú eru á boðstólnum eru sterkari en áður og eigi að flokkast með hörðum efnum á borð við heróín og kókaín. Síðan er aftur spurning hvað það hafi að segja því höfundar skýrslunnar telja Evrópumenn fljóta sofandi að feigðarósi þegar kemur að hvíta duftinu.

3,5 milljónir Evrópubúa eru sagðir neyta kókaíns að staðaldri, margir vel menntaðir og efnaðir. 40 prósent þess kókaíns sem framleitt er í heiminum er hins vegar neytt í Bandaríkjunum. Sem betur fer hefur náðst nokkur árangur í að uppræta eiturlyfjaframleiðslu í heiminum. Í því sambandi er mikilvægt að fá fátækum bændum sem rækta plöntur sem fíkniefni eru unnin úr önnur störf. Þannig dróst ópíumræktun í Afganistan saman á síðasta ári, í fyrsta sinn síðan ráðist var þar inn haustið 2001.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×