Kofahöfuðborg heimsins 20. maí 2006 13:06 Þessi grein birtist í DV 26. febrúar 2004, ég set hana hér inn vegna þess að umræða um Laugaveginn er aftur komin á flug í aðdraganda kosningabaráttunnar - og er alveg jafn rugluð og áður. Ég hef verið að reyna að halda þræði í umræðunni um Laugaveginn. Hún fór vitlaust af stað og hefur ekki komist á réttan kjöl aftur. Í æsingnum hafa menn ekki einu sinni vitað hvaða hús þeir voru að tala um. Myndasíða í DV sem umræðan hefur að miklu leyti byggt á var full af villum. Einn helsti talsmaður húsfriðunarstefnu kom í viðtal og gagnrýndi niðurrif á húsi sem stendur alls ekki til að rífa. Því var haldið fram að 25 hús væru dæmd til niðurrifs - í raun eru það 22 hús sem á kannski að rífa. Þrjú skástu húsin á niðurrifslistanum voru þar fyrir misgáning. Í rauninni hefði verið hægt að taka allt annan pól í hæðina og segja að með deiliskipulaginu sé staðfest vernd meira en 40 húsa. Þannig sé þetta stórkostleg húsfriðunaraðgerð.Nenna blaðamenn ekki úr húsi? Fárið sem hefur gripið um sig er svo ofsafengið að það hefur tæplega verið hægt að koma vitglóru inn í umræðuna. Fréttaflutningurinn hefur verið mjög einhæfur, DV hefur hamast, Morgunblaðið virðist stefna á að mynda bandalag með einstrengingslegustu verndunarsinnunum. Hví hefur fjölmiðlunum ekki einu sinni tekist að skýra frá því um hvaða hús er að ræða? Skyldi ástæðan vera sú að blaðamenn fara ekki út úr húsi - nenna ekki lengur öðru en að taka upp síma? Nú er komið á stúfana fólkið sem alltaf rýkur upp þegar minnst er á framkvæmdir. Næst á að rokka gegn niðurrifi á Laugaveginum. Meira að segja Stuðmenn klofna út af málinu - hluti sveitarinnar verður á Laugaveginum, hinir í Vatnsmýrinni að rokka gegn flugvelli.Göngutúr um Laugaveg Ég fór í göngutúr um Laugaveginn í gær. Hafði áður aflað mér upplýsinga hjá borgarskipulaginu um hvaða hús mætti rífa. Það liggur ekki alltaf í augum uppi. Húsnúmerin eru ógreinileg - hvar byrjar eitt hús og annað tekur við? Ég fór inn í búðirnar og var sagt að fjöldi fólks hefði verið þarna áður í sömu erindagjörðum. Ég staðhæfi að eftir þennan göngutúr er ég mest undrandi á því að ekki eigi að jafna fleiri hús við jörðu. Ömurlegar byggingar sem ég hefði samstundis treyst mér til að dæma til niðurrifs fá að standa áfram. Af húsunum sem leyft verður að rífa sá ég varla neitt hús sem væri þess virði að berjast fyrir - kannski eitt eða tvö. Ég fór í ræktina og hitti Pál Óskar. Hann rifjaði upp fyrir mér orð Monty Python mannsins Terrys Jones í þættinum How Do You Like Iceland? Jones sagðist hvergi hafa séð jafn marga kofa og á Íslandi. Við værum kofahöfuðborg heimsins.Vel unnið skipulag Margt hefur verið vitlaust gert í skipulagsmálum í Reykjavík og það er ekki að breytast - ég er til dæmis fullur efasemda um að fara allt í einu að hrúga Háskólanum í Reykjavík niður á einu frímerkinu úti í Vatnsmýri. Sá flutningur kemur meira eða minna til með að snúast um kröfur um bílastæði. En nú ber óvænt svo við að nokkuð vel virðist hafa verið staðið að skipulagi Laugavegarins. Fyrir utan að auka og bæta verslunarrými er meginhugmyndin sú að hafa byggðina nokkuð háa norðanmegin götunnar til að auka skjól, en lágreistari sunnanmegin til að sól skíni í götunni. Þetta er ástæðan fyrir því að mun fleiri hús verða rifin oddatölumegin við götuna, norðanmegin; satt að segja er ég nokkuð undrandi á sumum kofunum sem eiga að fá að standa áfram sunnanmegin hennar. Síðan verða notaðar ýmsar aðferðir til að hækka húsin við norðanverða götuna; það er, það að byggja ofan á þau eða jafnvel undir sum þeirra. Þannig hefur verið bent á að ekki þurfi endilega að rífa Laugaveg 11, heldur mætti auka notagildi hússins með því að bæta einni hæð ofan á þaðÓbeit á fúnkis Aðalviðfangsefnið og miklu forvitnilegra en verndunarþrasið er hvað á að koma í staðinn. Í gegnum alla umræðuna skín megn vantrú á íslenskum arkitektum, eins og ekki sé hægt að treysta þeim til annars en að vinna spjöll. Þess vegna sé ekkert hægt að framkvæma. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir arkitektastéttina hvað af henni fer vont orð. Hluti af þessu er óbeit á módernisma í arkiitektúr. Skæðasta birtingarmynd hans, fúnkísstefnan, táknaði á sínum tíma algjört rof frá fyrri hefðum í húsagerðarlist. Það var byrjað á núlli, eins og fortíðin væri ekki til. Nú, fjórum kynslóðum síðar, hefur almenningur ekki enn sætt sig við hagnýtisstefnuna. Þvert á móti - henni er kennt um að hafa eyðilagt borgir í stórum stíl. Samt er hún ennþá ráðandi. Því er nú rætt um að taka mið af eldri hefð í endurbyggingu Laugavegsins. Að arkitektunum verði sniðinn svo þröngur stakkur að ekki verði hægt að gera neina vitleysu. Það á að stofna "rýnihóp" til að marka stefnuna. Spurningin er bara af hverju á að taka mið. Í Kaupmannahöfn, Bergen eða París, væri það ekki vandamál - borgarmyndin hefur mjög eindreginn stíl. Hér ríkir algjört sundurleysi, nánast glundroði. Hvar á að leita fyrirmynda?Bárujárnsstíllinn Sumir hafa bent niður í Aðalstræti, á hótelbyggingarnar sem eru að rísa þar. Þarna sér maður einhvers konar tilbrigði við horfin hús, gömlu Uppsali og Fjalaköttinn. Arkitektum þykir þetta ekki fínt - það er talað um "kits". Það er nokkuð til í því. Framkvæmdin minnir dálítið á Nikolaihverfið í Austur-Berlín. Þar ákváðu kommarnir að endurreisa elsta hluta Berlínar sem hafði verið eyðilagður í stríðinu. Smekkleysi þeirra var hins vegar óbrigðult. Þeir endurbyggðu til hálfs - neðsti hluti húsanna virkar nokkuð upprunalegur, en svo lítur maður upp og þá blasir við groddaleg steinsteypan. En tilraunin í Aðalstræti er samt áhugaverð og ekki nema von þótt spurt sé hvort ekki sé hægt að halda áfram að byggja borgina í þessum stíl? Bárujárnshúsin þykja jú afar íslensk - en eru það samt ekki. Þau eru ekki úr íslensku efni, heldur eru þetta norsk katalóghús sem komu hingað tilsniðin og númeruð og voru svo sett saman. Húsin eru mörg í svonefndum schweitzer-stíl; norskir byggingameistarar voru á þessum árum undir áhrifum frá byggingarlagi svissneskra fjallakofa. Upprunalega voru þetta timburhús, en svo fúnaði timbrið utan af húsunum í rysjóttri veðráttunni og þá var neglt utan á það bárujárn, ódýrasta efnið sem fannst.Klassískur Reykjavíkurstíll Annar stíll sem mætti líta til er nokkuð sem kalla mætti klassískan Reykjavíkurstíl. Þetta eru hús sem voru reist á fyrstu áratugum 20. aldar - af einhverjum ástæðum varð ekki framhald á byggingu slíkra glæsihúsa í bænum. Kannski vegna fátæktar eða smásálarháttar. Maður sér í hillingum ef Reykjavík hefði verið byggð með þessu lagi. Þarna má nefna nokkur hús sem standa meðfram þorpsgötunni frá Aðalstræti og upp Laugaveg: Egils Jacobsen húsið þar sem nú er Rex, Café París, gamla Verslunarbankann þar sem í eina tíð var Skóverslun Lárusar, Sólon Islandus, verslunarhús Guðsteins Eyjólfssonar, og húsið þar sem nú er Biskupsstofa, en þar var lika búð á blómaskeiði miðborgarinnar og kallaðist Verslun Marteins Einarssonar. Viðbygging sem Bolli Kristinsson reisti við verslunina 17 er í þessum stíl - maður hallast að því að það sé best heppnaða nýbygging á Laugaveginum.Sporin hræða Sporin hræða auðvitað. Það hafa verið byggð svo mörg skelfilega ljót hús í bænum, þeim hefur verið drullað niður án tilits til umhverfis síns, ekki var hugsað um neitt annað en byggingamagn og brútal nytjasjónamið. Mörgum finnst það framandi hugmynd að rífa nýleg hús - en vissulega má farga mörgum þeirra. Af þessum sökum er ekki furða þótt menn velti fyrir sér hvort ekki sé heppilegra að endurbyggja gömlu húsin á Laugaveginum frekar en að leggja út í misráðin ævintýri. Eftir göngutúrinn um götuna er ég sannfærðari en áður að það sé ekkert vit í því. Mörg þessara húsa hafa aldrei verið neitt, þeim er ekki viðbjargandi - endurbyggingar væru ekki annað en aumkunarverðar falsanir. Það væri örugglega hægt að nota peningana í eitthvað merkilegra en að gera Nikebúðina, Blúsbarinn eða Shanghæ að einhverju sem þessi hús aldrei voru. Þetta eru kofar, byggðir af skelfilegum vanefnum - úr þessu verður ekki Legoland eða Árbæjarsafn með stúlkum í upphlut og rjómapönnukökum.Ekki sjarmerandi sundurleysi Ég blæs líka á tal um sjarmerandi sundurleysi. Þetta er óskapnaður. Það þarf að losna við brunagaflana, portin, sundin sem skera götumyndina þannig að hún verður eins og illa tenntur sveitamaður. Það þarf að fullbyggja borgina - það er lélegt ef við ráðum ekki við það verkefni vegna vanmetakenndar. Í greininni mæli með klassískum viðmiðum, en það má kannski líka biðja um að hugarflugið fái að aðeins að njóta sín - að eitthvað annað verði haft að leiðarljósi en geld nytjasjónarmið og nánasarháttur. Vinur minn sem ég ræddi við nefndi tvo meistara í þessu sambandi: Gaudi og Hundertwasser, arkitekta sem hleyptu hugarflugi inn í sköpun sína en varla neinn hefur þorað að fylgja.Marxistar á Alþingi Annað þessu skylt: Pólitíkusar eru í fári út af ofþenslunni á húsnæðismarkaði. Umræðan sem um hana geisar er furðuleg. Maður sem ég hitti sagðist hissa á því hversu margir marxistar eru á Alþingi. Það eru meira að segja komnar fram hugmyndir um að setja lög á lóðaverð - eða kannski einhvers konar lóðaskömmtunarnefnd. Skrítið er að heyra stjórnmálamenn segja að þeir hafi ekki áttað sig á því að stóraukið framboð af lánsfé myndi leiða til verðhækkana. Það eru ýmis skringileg viðskipti sem blómstra í þessu árferði, braskarar landsins hafa einhent sér inn á húsnæðismarkaðinn. Byggingaverktakar taka lán í bönkum til að kaupa lóðir, þeir fá svo aftur lán til að byggja húsin, bankinn kemur svo aftur að sölu húsanna, hann lánar kaupandanum fyrir kaupverðinu - með veði í þessu sama húsi sem bankinn hefur fjármagnað og er svo gott sem eigandi að. Þetta er skringilegur matadorleikur og kannski engin spurning að það eru aðallega bankarnir sem halda uppi háu húsnæðisverði.Lóðaskortssöngurinn Í svona ástandi er svosem ekki annað að gera en bíða. Kannski tapa einhverjir peningum. Til langs tíma litið er mesta hættan þó sú að borgarskipulagi verði kastað út um gluggann. Fasteignabransinn er knúinn áfram af gróðafíkn, það er enginn gaumur gefinn að góðu skipulagi eða fagurfræði. Byggingameistarar heimta meiri lóðir og pólitíkusar og fjölmiðlar kyrja með af einstakri skammsýni. Mér er tjáð að þegar séu merki um að gæðum húsbygginga fari hrakandi. Í svona þensluæði er hætt við að verði hrúgað upp fleiri Norðlingaholtum og Smárahverfum. Eftir nokkur ár sitjum við svo uppi með hrylling sem ekki er hægt að fjarlægja aftur. Lóðaskortssöngurinn er líka skrítinn í ljósi þess að það eru ekki einbýlishús sem vantar. Eftir að lánaþakið fauk af var hægt að koma í verð húsnæði sem áður hafði verið erfitt að selja, framboð af stórum eignum jókst, en á sama tíma er skorturinn mestur á minna húsnæði fyrir ungt fólk sem streymir inn á markaðinn eins og aldrei fyrr. Það vantar litlar íbúðir fyrir þetta fólk - helst miðsvæðis svo það þurfi ekki að eyða ógnarfjárhæðum í rekstur bifreiða.Ofverndunarstefna eða bílastæðismi Það þarf að þétta byggðina. Auð og niðurnídd svæði út um allt eru til stórkostlegrar óprýði. Um leið er miðborginni nokkur háski búinn í svona ástandi. Verktakar kaupa hús til niðurrifs, hættan er vissulega sú að verði hrúgað upp kumböldum og ekki skeytt um annað en nýtingarhlutfall. Þess vegna eigum við að ræða um hvernig við viljum byggja, fagurfræði ekki síður en notagildi. Umræðan er því miður afskaplega vanburða, annars vegar ríkir bílastæðisminn og kvak um meiri lóðir en hinum megin geisar ofverndunarstefnan. Það er erfitt að komast milli þessara öfga. En það er kominn tími til að rífa sig upp úr þessu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Þessi grein birtist í DV 26. febrúar 2004, ég set hana hér inn vegna þess að umræða um Laugaveginn er aftur komin á flug í aðdraganda kosningabaráttunnar - og er alveg jafn rugluð og áður. Ég hef verið að reyna að halda þræði í umræðunni um Laugaveginn. Hún fór vitlaust af stað og hefur ekki komist á réttan kjöl aftur. Í æsingnum hafa menn ekki einu sinni vitað hvaða hús þeir voru að tala um. Myndasíða í DV sem umræðan hefur að miklu leyti byggt á var full af villum. Einn helsti talsmaður húsfriðunarstefnu kom í viðtal og gagnrýndi niðurrif á húsi sem stendur alls ekki til að rífa. Því var haldið fram að 25 hús væru dæmd til niðurrifs - í raun eru það 22 hús sem á kannski að rífa. Þrjú skástu húsin á niðurrifslistanum voru þar fyrir misgáning. Í rauninni hefði verið hægt að taka allt annan pól í hæðina og segja að með deiliskipulaginu sé staðfest vernd meira en 40 húsa. Þannig sé þetta stórkostleg húsfriðunaraðgerð.Nenna blaðamenn ekki úr húsi? Fárið sem hefur gripið um sig er svo ofsafengið að það hefur tæplega verið hægt að koma vitglóru inn í umræðuna. Fréttaflutningurinn hefur verið mjög einhæfur, DV hefur hamast, Morgunblaðið virðist stefna á að mynda bandalag með einstrengingslegustu verndunarsinnunum. Hví hefur fjölmiðlunum ekki einu sinni tekist að skýra frá því um hvaða hús er að ræða? Skyldi ástæðan vera sú að blaðamenn fara ekki út úr húsi - nenna ekki lengur öðru en að taka upp síma? Nú er komið á stúfana fólkið sem alltaf rýkur upp þegar minnst er á framkvæmdir. Næst á að rokka gegn niðurrifi á Laugaveginum. Meira að segja Stuðmenn klofna út af málinu - hluti sveitarinnar verður á Laugaveginum, hinir í Vatnsmýrinni að rokka gegn flugvelli.Göngutúr um Laugaveg Ég fór í göngutúr um Laugaveginn í gær. Hafði áður aflað mér upplýsinga hjá borgarskipulaginu um hvaða hús mætti rífa. Það liggur ekki alltaf í augum uppi. Húsnúmerin eru ógreinileg - hvar byrjar eitt hús og annað tekur við? Ég fór inn í búðirnar og var sagt að fjöldi fólks hefði verið þarna áður í sömu erindagjörðum. Ég staðhæfi að eftir þennan göngutúr er ég mest undrandi á því að ekki eigi að jafna fleiri hús við jörðu. Ömurlegar byggingar sem ég hefði samstundis treyst mér til að dæma til niðurrifs fá að standa áfram. Af húsunum sem leyft verður að rífa sá ég varla neitt hús sem væri þess virði að berjast fyrir - kannski eitt eða tvö. Ég fór í ræktina og hitti Pál Óskar. Hann rifjaði upp fyrir mér orð Monty Python mannsins Terrys Jones í þættinum How Do You Like Iceland? Jones sagðist hvergi hafa séð jafn marga kofa og á Íslandi. Við værum kofahöfuðborg heimsins.Vel unnið skipulag Margt hefur verið vitlaust gert í skipulagsmálum í Reykjavík og það er ekki að breytast - ég er til dæmis fullur efasemda um að fara allt í einu að hrúga Háskólanum í Reykjavík niður á einu frímerkinu úti í Vatnsmýri. Sá flutningur kemur meira eða minna til með að snúast um kröfur um bílastæði. En nú ber óvænt svo við að nokkuð vel virðist hafa verið staðið að skipulagi Laugavegarins. Fyrir utan að auka og bæta verslunarrými er meginhugmyndin sú að hafa byggðina nokkuð háa norðanmegin götunnar til að auka skjól, en lágreistari sunnanmegin til að sól skíni í götunni. Þetta er ástæðan fyrir því að mun fleiri hús verða rifin oddatölumegin við götuna, norðanmegin; satt að segja er ég nokkuð undrandi á sumum kofunum sem eiga að fá að standa áfram sunnanmegin hennar. Síðan verða notaðar ýmsar aðferðir til að hækka húsin við norðanverða götuna; það er, það að byggja ofan á þau eða jafnvel undir sum þeirra. Þannig hefur verið bent á að ekki þurfi endilega að rífa Laugaveg 11, heldur mætti auka notagildi hússins með því að bæta einni hæð ofan á þaðÓbeit á fúnkis Aðalviðfangsefnið og miklu forvitnilegra en verndunarþrasið er hvað á að koma í staðinn. Í gegnum alla umræðuna skín megn vantrú á íslenskum arkitektum, eins og ekki sé hægt að treysta þeim til annars en að vinna spjöll. Þess vegna sé ekkert hægt að framkvæma. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir arkitektastéttina hvað af henni fer vont orð. Hluti af þessu er óbeit á módernisma í arkiitektúr. Skæðasta birtingarmynd hans, fúnkísstefnan, táknaði á sínum tíma algjört rof frá fyrri hefðum í húsagerðarlist. Það var byrjað á núlli, eins og fortíðin væri ekki til. Nú, fjórum kynslóðum síðar, hefur almenningur ekki enn sætt sig við hagnýtisstefnuna. Þvert á móti - henni er kennt um að hafa eyðilagt borgir í stórum stíl. Samt er hún ennþá ráðandi. Því er nú rætt um að taka mið af eldri hefð í endurbyggingu Laugavegsins. Að arkitektunum verði sniðinn svo þröngur stakkur að ekki verði hægt að gera neina vitleysu. Það á að stofna "rýnihóp" til að marka stefnuna. Spurningin er bara af hverju á að taka mið. Í Kaupmannahöfn, Bergen eða París, væri það ekki vandamál - borgarmyndin hefur mjög eindreginn stíl. Hér ríkir algjört sundurleysi, nánast glundroði. Hvar á að leita fyrirmynda?Bárujárnsstíllinn Sumir hafa bent niður í Aðalstræti, á hótelbyggingarnar sem eru að rísa þar. Þarna sér maður einhvers konar tilbrigði við horfin hús, gömlu Uppsali og Fjalaköttinn. Arkitektum þykir þetta ekki fínt - það er talað um "kits". Það er nokkuð til í því. Framkvæmdin minnir dálítið á Nikolaihverfið í Austur-Berlín. Þar ákváðu kommarnir að endurreisa elsta hluta Berlínar sem hafði verið eyðilagður í stríðinu. Smekkleysi þeirra var hins vegar óbrigðult. Þeir endurbyggðu til hálfs - neðsti hluti húsanna virkar nokkuð upprunalegur, en svo lítur maður upp og þá blasir við groddaleg steinsteypan. En tilraunin í Aðalstræti er samt áhugaverð og ekki nema von þótt spurt sé hvort ekki sé hægt að halda áfram að byggja borgina í þessum stíl? Bárujárnshúsin þykja jú afar íslensk - en eru það samt ekki. Þau eru ekki úr íslensku efni, heldur eru þetta norsk katalóghús sem komu hingað tilsniðin og númeruð og voru svo sett saman. Húsin eru mörg í svonefndum schweitzer-stíl; norskir byggingameistarar voru á þessum árum undir áhrifum frá byggingarlagi svissneskra fjallakofa. Upprunalega voru þetta timburhús, en svo fúnaði timbrið utan af húsunum í rysjóttri veðráttunni og þá var neglt utan á það bárujárn, ódýrasta efnið sem fannst.Klassískur Reykjavíkurstíll Annar stíll sem mætti líta til er nokkuð sem kalla mætti klassískan Reykjavíkurstíl. Þetta eru hús sem voru reist á fyrstu áratugum 20. aldar - af einhverjum ástæðum varð ekki framhald á byggingu slíkra glæsihúsa í bænum. Kannski vegna fátæktar eða smásálarháttar. Maður sér í hillingum ef Reykjavík hefði verið byggð með þessu lagi. Þarna má nefna nokkur hús sem standa meðfram þorpsgötunni frá Aðalstræti og upp Laugaveg: Egils Jacobsen húsið þar sem nú er Rex, Café París, gamla Verslunarbankann þar sem í eina tíð var Skóverslun Lárusar, Sólon Islandus, verslunarhús Guðsteins Eyjólfssonar, og húsið þar sem nú er Biskupsstofa, en þar var lika búð á blómaskeiði miðborgarinnar og kallaðist Verslun Marteins Einarssonar. Viðbygging sem Bolli Kristinsson reisti við verslunina 17 er í þessum stíl - maður hallast að því að það sé best heppnaða nýbygging á Laugaveginum.Sporin hræða Sporin hræða auðvitað. Það hafa verið byggð svo mörg skelfilega ljót hús í bænum, þeim hefur verið drullað niður án tilits til umhverfis síns, ekki var hugsað um neitt annað en byggingamagn og brútal nytjasjónamið. Mörgum finnst það framandi hugmynd að rífa nýleg hús - en vissulega má farga mörgum þeirra. Af þessum sökum er ekki furða þótt menn velti fyrir sér hvort ekki sé heppilegra að endurbyggja gömlu húsin á Laugaveginum frekar en að leggja út í misráðin ævintýri. Eftir göngutúrinn um götuna er ég sannfærðari en áður að það sé ekkert vit í því. Mörg þessara húsa hafa aldrei verið neitt, þeim er ekki viðbjargandi - endurbyggingar væru ekki annað en aumkunarverðar falsanir. Það væri örugglega hægt að nota peningana í eitthvað merkilegra en að gera Nikebúðina, Blúsbarinn eða Shanghæ að einhverju sem þessi hús aldrei voru. Þetta eru kofar, byggðir af skelfilegum vanefnum - úr þessu verður ekki Legoland eða Árbæjarsafn með stúlkum í upphlut og rjómapönnukökum.Ekki sjarmerandi sundurleysi Ég blæs líka á tal um sjarmerandi sundurleysi. Þetta er óskapnaður. Það þarf að losna við brunagaflana, portin, sundin sem skera götumyndina þannig að hún verður eins og illa tenntur sveitamaður. Það þarf að fullbyggja borgina - það er lélegt ef við ráðum ekki við það verkefni vegna vanmetakenndar. Í greininni mæli með klassískum viðmiðum, en það má kannski líka biðja um að hugarflugið fái að aðeins að njóta sín - að eitthvað annað verði haft að leiðarljósi en geld nytjasjónarmið og nánasarháttur. Vinur minn sem ég ræddi við nefndi tvo meistara í þessu sambandi: Gaudi og Hundertwasser, arkitekta sem hleyptu hugarflugi inn í sköpun sína en varla neinn hefur þorað að fylgja.Marxistar á Alþingi Annað þessu skylt: Pólitíkusar eru í fári út af ofþenslunni á húsnæðismarkaði. Umræðan sem um hana geisar er furðuleg. Maður sem ég hitti sagðist hissa á því hversu margir marxistar eru á Alþingi. Það eru meira að segja komnar fram hugmyndir um að setja lög á lóðaverð - eða kannski einhvers konar lóðaskömmtunarnefnd. Skrítið er að heyra stjórnmálamenn segja að þeir hafi ekki áttað sig á því að stóraukið framboð af lánsfé myndi leiða til verðhækkana. Það eru ýmis skringileg viðskipti sem blómstra í þessu árferði, braskarar landsins hafa einhent sér inn á húsnæðismarkaðinn. Byggingaverktakar taka lán í bönkum til að kaupa lóðir, þeir fá svo aftur lán til að byggja húsin, bankinn kemur svo aftur að sölu húsanna, hann lánar kaupandanum fyrir kaupverðinu - með veði í þessu sama húsi sem bankinn hefur fjármagnað og er svo gott sem eigandi að. Þetta er skringilegur matadorleikur og kannski engin spurning að það eru aðallega bankarnir sem halda uppi háu húsnæðisverði.Lóðaskortssöngurinn Í svona ástandi er svosem ekki annað að gera en bíða. Kannski tapa einhverjir peningum. Til langs tíma litið er mesta hættan þó sú að borgarskipulagi verði kastað út um gluggann. Fasteignabransinn er knúinn áfram af gróðafíkn, það er enginn gaumur gefinn að góðu skipulagi eða fagurfræði. Byggingameistarar heimta meiri lóðir og pólitíkusar og fjölmiðlar kyrja með af einstakri skammsýni. Mér er tjáð að þegar séu merki um að gæðum húsbygginga fari hrakandi. Í svona þensluæði er hætt við að verði hrúgað upp fleiri Norðlingaholtum og Smárahverfum. Eftir nokkur ár sitjum við svo uppi með hrylling sem ekki er hægt að fjarlægja aftur. Lóðaskortssöngurinn er líka skrítinn í ljósi þess að það eru ekki einbýlishús sem vantar. Eftir að lánaþakið fauk af var hægt að koma í verð húsnæði sem áður hafði verið erfitt að selja, framboð af stórum eignum jókst, en á sama tíma er skorturinn mestur á minna húsnæði fyrir ungt fólk sem streymir inn á markaðinn eins og aldrei fyrr. Það vantar litlar íbúðir fyrir þetta fólk - helst miðsvæðis svo það þurfi ekki að eyða ógnarfjárhæðum í rekstur bifreiða.Ofverndunarstefna eða bílastæðismi Það þarf að þétta byggðina. Auð og niðurnídd svæði út um allt eru til stórkostlegrar óprýði. Um leið er miðborginni nokkur háski búinn í svona ástandi. Verktakar kaupa hús til niðurrifs, hættan er vissulega sú að verði hrúgað upp kumböldum og ekki skeytt um annað en nýtingarhlutfall. Þess vegna eigum við að ræða um hvernig við viljum byggja, fagurfræði ekki síður en notagildi. Umræðan er því miður afskaplega vanburða, annars vegar ríkir bílastæðisminn og kvak um meiri lóðir en hinum megin geisar ofverndunarstefnan. Það er erfitt að komast milli þessara öfga. En það er kominn tími til að rífa sig upp úr þessu.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun