Lífið

Litla hryllingsbúðin í Íslensku óperunni

Söngleikurinn Litla hryllingsbúðin hefur heldur betur slegið í gegn í samkomuhúsinu á Akureyri að undanförnu. Sýningin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og frábæra aðsókn. Einnig hefur tónlistin með lögum úr sýningunni hljómað á öldum ljósvakans og ættu flestir að vera farnir að þekkja smelli eins og "Gemmér" í flutningi Andreu Gylfadóttur ásamt fleiri lögum úr sýningunni. Síðasta sýningin á Akureyri er þann 6. maí, en þá verður sviðsmyndinni og öllu tilheyrandi pakkað saman, flutt suður yfir heiðar og komið fyrir í Íslensku óperunni við Ingólfsstræti, en sviðsmynd sýningarinnar var hönnuð með það í huga að hún passaði bæði á sviðið í samkomuhúsinu á Akureyri og á svið Óperunnar. Litla hryllingsbúðin var síðast sýnd í Íslensku óperunni árið 1984 og muna eflaust margir eftir Ladda sem sló í gegn í hlutverki tannlæknisins ógnvænlega.

Það eru sömu leikarar sem fara með hlutverkin í sýningunni fyrir norðan og sunnan en sýningin opnar í Óperunni 12. maí og er áætlað að sýna út júní.

Miðasala á sýningar í Óperunni hefst laugardaginn 8. apríl kl. 10 og um helgina er í gangi frábært tilboð en allir sem kaupa tvo miða, eða fleiri, fá geisladiskinn með tónlistinni úr sýningunni. Tilboðið gildir á laugardag og sunnudag á meðan að birgðir endast. Miðasala er í síma 511 6400 og á www.opera.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.