Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari er nýsnúin heim úr tónleikaferðalagi um Kína þar sem hún kom fram ásamt írska strengjakvartettinum Vanbrugh. Áshildur og Vanbrugh ferðuðust um í rúmar tvær vikur og komu meðal annars fram í Shanghaí og Beijing.
„Svo kenndum við einn dag í tónlistarskóla í Chongqin,“ sagði Áshildur, en íbúar í borginni og á nálægum svæðum eru um 35 milljónir. „Þetta var þrjú þúsund manna skóli með sjö hundruð æfingaherbergjum, ekki alveg sami skali og hérna heima,“ sagði Áshildur. Hún sagði stemninguna á tónleikunum hafa verið öðruvísi en hún hafi átt að venjast.
„Fólk spjallaði saman og svaraði í gsm símana sína og svona. Svo klöppuðu allir á milli kafla og þegar við spiluðum kínverska tónlist klappaði fólk bara með.”
Fyrir utan Kínaferðir hefur Áshildur unnið að nýjum geisladiski. Á honum leikur hún flaututónlist Atla Heimis Sveinssonar við undirleik Atla Heimis sjálfs og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur.