Fagurgali og framkvæmdir 15. nóvember 2006 06:00 Þegar kosningar nálgast fyllast allir stjórnmálamenn umhyggju fyrir öldruðum. Fögur orð eru látin falla um það, hvernig þeir, sem nú eru að þokast út af vinnumarkaði, eða sestir í helgan stein, hafi byggt upp það ríkidæmi, sem skilað hefir íslensku þjóðinni í röð auðugustu þjóða heims á hvaða mælikvarða sem mælt er. Því eigi þeir það skilið að þeir sem halda um sameiginlega pyngju þjóðarinnar, hagi forgangsröð fjárveitinga þannig að öldruðum sé búin aðstaða til að eiga fagurt og friðsælt ævikvöld. En þegar til kastanna kemur verður annað upp á teningnum. Þingmenn hafa nær umræðulaust tekið sjálfa sig út fyrir sviga og búið sér til lífeyriskerfi, sem er langt handan þess reynsluheims, sem almennir borgarar þjóðfélagsins þekkja og verða að sætta sig við. Þeir þurfa ekkert að leggja til þess, en fá greitt án nokkurra skerðinga og takmarkana, geta í sumum tilfellum hafið lífeyristöku meðan þeir eru í fullu fjöri og gegna fullum störfum á vegum vinnuveitanda síns ríkisins. Þegar til almannatrygginga var stofnað var það á þeim grundvelli að menn væru með sérstökum greiðslum að skapa sér rétt til lágmarkslauna í ellinni. Í samningum við atvinnurekendur og ríkisvald féllust svo launþegar á þá tilhögun árið 1968 að 10% launa yrðu lögð fyrir í sérstaka sjóði, lífeyrissjóði, sem kæmu sem viðbót við ellilífeyri almannatrygginga, svo og örorkulífeyri til þeirra, sem yrðu fyrir áföllum og heilsutjóni á lífsleiðinni. Grundvallarhugmynd almannatrygginga var því sú, að menn sköpuðu sér á lífsleiðinni einstaklingsbundinn rétt til lífeyris eftir að þeir væru horfnir út af vinnumarkaði; í almannatryggingunum jafnan rétt án tillits til mismunandi tekna, en í lífeyrissjóðunum rétt í samsvörun við það sem greitt hafði verið inn. Illu heilli var horfið frá þessu prinsippi á síðasta áratug síðustu aldar, á þeim forsendum að þeir betur stæðu hefðu ekkert með þetta fé að gera. Nær væri að gera betur við þá allra verst stæðu með því að skerða, eða afnema, bætur til þeirra sem betur hefði farnast, og verja því fé sem þannig sparaðist til að bæta kjör þeirra, sem ekkert annað hefðu fyrir sig að leggja. Með þessu var horfið frá réttarkerfi yfir í ölmusukerfi. Eins og sveitarlimirnir í gamla daga þurfa nú lífeyrisþegar að sanna vesöld sína fyrir yfirvöldum almannatrygginga til þess að fá bætur. Og ekki nóg með það. Ef maki þeirra er í fullu fjöri og á þokkalegum launum, fellur rétturinn niður, sem þeir áttu að hafa skapað sér í almannatryggingum. Ennfremur er nú litið á bætur almannatrygginga og greiðslur úr eigin lífeyrissjóðum sem samtölu. Hækki önnur, minnkar hin að sama skapi. Reyni ellilífeyrisþeginn að drýgja tekjur sínar með tilfallandi aukastörfum er lífeyrir hans skertur að sama skapi. Eina úrræðið, sem er opið fyrir hann, er því að vinna svart, sem er sannarlega freistandi þegar bæði er þá hægt að stinga í vasann þeim 40%, sem annars færu í skatta og komast hjá skerðingu lífeyrisgreiðslnanna. Það má vera harður nagli og ólæknandi vinnufíkill, sem er tilbúinn að fara út á vinnumarkaðinn eftir sjötugt til þess eins að halda eftir ca 15 krónum af hverjum 100, sem hann þénar. Yfirvöld leggja oft hart að þegnunum að spara og leggja fyrir til elliáranna. Hvar er hvatinn til þess ef sá sparnaður leiðir einungis til skerðingar á lífeyri að sama skapi? Oft virðist hægri hönd ráðamanna þjóðfélagsins ekki hafa hugmynd um hvað sú vinstri er að bauka! Ekki nóg með það. Með því að hverfa frá hinni upphaflegu grunnreglu almannatrygginga um áunninn einstaklingsbundinn rétt, yfir í ölmusukerfi, þar sem bótaþeginn verður að sanna fyrir yfirvöldum að hann sé „verðugur" sökum fátæktar, er lagður grunnurinn að eins konar fjölmennri eftirlaunalögreglu, sem snuðrar í skattskýrslum fólks og bankabókum, og krefst endurgreiðslna á hverjum eyri sem til hefur fallið utan marka fátæktargildrunnar. Og þá er miskunnarlaust krafist endurgreiðslu á bótum frá fyrri árum. Mörgum bótaþeganum á eftir að bregða í brún á næstu dögum og vikum þegar hann fær endurkröfubréfin frá almannatryggingum, fyrir að hafa „svikið út" greiðslur af almannafé, umfram það sem stjórnarherrarnir telja hverjum nægja til að skrimta. Oft hefur komið til tals á undanförnum árum að bótaþegar almannatrygginga verði að stíga skrefið til fulls til varnar og sóknar fyrir sína hagsmuni með því að bjóða sjálfstætt fram til þings og eignast þannig sína rödd eða raddir inn á því markaðstorgi sérhagsmunanna sem Alþingi er orðið. Ég fæ ekki betur séð en að sú stund sé upp runnin, að þeir kanni þennan möguleika í fyllstu alvöru og verði til þess reiðubúnir strax á vori komanda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Hannibalsson Skoðanir Mest lesið Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Sjálfræðissvipting þjóðar Ægir Örn Arnarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun
Þegar kosningar nálgast fyllast allir stjórnmálamenn umhyggju fyrir öldruðum. Fögur orð eru látin falla um það, hvernig þeir, sem nú eru að þokast út af vinnumarkaði, eða sestir í helgan stein, hafi byggt upp það ríkidæmi, sem skilað hefir íslensku þjóðinni í röð auðugustu þjóða heims á hvaða mælikvarða sem mælt er. Því eigi þeir það skilið að þeir sem halda um sameiginlega pyngju þjóðarinnar, hagi forgangsröð fjárveitinga þannig að öldruðum sé búin aðstaða til að eiga fagurt og friðsælt ævikvöld. En þegar til kastanna kemur verður annað upp á teningnum. Þingmenn hafa nær umræðulaust tekið sjálfa sig út fyrir sviga og búið sér til lífeyriskerfi, sem er langt handan þess reynsluheims, sem almennir borgarar þjóðfélagsins þekkja og verða að sætta sig við. Þeir þurfa ekkert að leggja til þess, en fá greitt án nokkurra skerðinga og takmarkana, geta í sumum tilfellum hafið lífeyristöku meðan þeir eru í fullu fjöri og gegna fullum störfum á vegum vinnuveitanda síns ríkisins. Þegar til almannatrygginga var stofnað var það á þeim grundvelli að menn væru með sérstökum greiðslum að skapa sér rétt til lágmarkslauna í ellinni. Í samningum við atvinnurekendur og ríkisvald féllust svo launþegar á þá tilhögun árið 1968 að 10% launa yrðu lögð fyrir í sérstaka sjóði, lífeyrissjóði, sem kæmu sem viðbót við ellilífeyri almannatrygginga, svo og örorkulífeyri til þeirra, sem yrðu fyrir áföllum og heilsutjóni á lífsleiðinni. Grundvallarhugmynd almannatrygginga var því sú, að menn sköpuðu sér á lífsleiðinni einstaklingsbundinn rétt til lífeyris eftir að þeir væru horfnir út af vinnumarkaði; í almannatryggingunum jafnan rétt án tillits til mismunandi tekna, en í lífeyrissjóðunum rétt í samsvörun við það sem greitt hafði verið inn. Illu heilli var horfið frá þessu prinsippi á síðasta áratug síðustu aldar, á þeim forsendum að þeir betur stæðu hefðu ekkert með þetta fé að gera. Nær væri að gera betur við þá allra verst stæðu með því að skerða, eða afnema, bætur til þeirra sem betur hefði farnast, og verja því fé sem þannig sparaðist til að bæta kjör þeirra, sem ekkert annað hefðu fyrir sig að leggja. Með þessu var horfið frá réttarkerfi yfir í ölmusukerfi. Eins og sveitarlimirnir í gamla daga þurfa nú lífeyrisþegar að sanna vesöld sína fyrir yfirvöldum almannatrygginga til þess að fá bætur. Og ekki nóg með það. Ef maki þeirra er í fullu fjöri og á þokkalegum launum, fellur rétturinn niður, sem þeir áttu að hafa skapað sér í almannatryggingum. Ennfremur er nú litið á bætur almannatrygginga og greiðslur úr eigin lífeyrissjóðum sem samtölu. Hækki önnur, minnkar hin að sama skapi. Reyni ellilífeyrisþeginn að drýgja tekjur sínar með tilfallandi aukastörfum er lífeyrir hans skertur að sama skapi. Eina úrræðið, sem er opið fyrir hann, er því að vinna svart, sem er sannarlega freistandi þegar bæði er þá hægt að stinga í vasann þeim 40%, sem annars færu í skatta og komast hjá skerðingu lífeyrisgreiðslnanna. Það má vera harður nagli og ólæknandi vinnufíkill, sem er tilbúinn að fara út á vinnumarkaðinn eftir sjötugt til þess eins að halda eftir ca 15 krónum af hverjum 100, sem hann þénar. Yfirvöld leggja oft hart að þegnunum að spara og leggja fyrir til elliáranna. Hvar er hvatinn til þess ef sá sparnaður leiðir einungis til skerðingar á lífeyri að sama skapi? Oft virðist hægri hönd ráðamanna þjóðfélagsins ekki hafa hugmynd um hvað sú vinstri er að bauka! Ekki nóg með það. Með því að hverfa frá hinni upphaflegu grunnreglu almannatrygginga um áunninn einstaklingsbundinn rétt, yfir í ölmusukerfi, þar sem bótaþeginn verður að sanna fyrir yfirvöldum að hann sé „verðugur" sökum fátæktar, er lagður grunnurinn að eins konar fjölmennri eftirlaunalögreglu, sem snuðrar í skattskýrslum fólks og bankabókum, og krefst endurgreiðslna á hverjum eyri sem til hefur fallið utan marka fátæktargildrunnar. Og þá er miskunnarlaust krafist endurgreiðslu á bótum frá fyrri árum. Mörgum bótaþeganum á eftir að bregða í brún á næstu dögum og vikum þegar hann fær endurkröfubréfin frá almannatryggingum, fyrir að hafa „svikið út" greiðslur af almannafé, umfram það sem stjórnarherrarnir telja hverjum nægja til að skrimta. Oft hefur komið til tals á undanförnum árum að bótaþegar almannatrygginga verði að stíga skrefið til fulls til varnar og sóknar fyrir sína hagsmuni með því að bjóða sjálfstætt fram til þings og eignast þannig sína rödd eða raddir inn á því markaðstorgi sérhagsmunanna sem Alþingi er orðið. Ég fæ ekki betur séð en að sú stund sé upp runnin, að þeir kanni þennan möguleika í fyllstu alvöru og verði til þess reiðubúnir strax á vori komanda.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun