Kammersveit Reykjavíkur gerir víðreist um þessar mundir og heldur þrenna tónleika í Stykkishólmi, Ísafirði og á Húsavík og flytur verk eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Franz Schubert.
Sex félagar úr sveitinni halda tónleika í Stykkishólmskirkju kl. 17 í dag, þau Rut Ingólfsdóttir, fiðla og listrænn stjórnandi sveitarinnar, Sigurlaug Eðvaldsdóttir, fiðluleikari, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóluleikari, Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari, Hrafnkell Orri Egilsson sellóleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari.
Á morgun heldur sveitin tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði kl. 15 en að endingu verður leikið á Húsavík mánudagskvöldið 6. nóvember kl. 20 í sal Borgarhólsskóla.
Á efnisskrá tónleikanna þriggja eru Strengjakvintett Schuberts í C-dúr op. 163, sem oft er nefndur drottning kammerverkanna sökum hversu fallegur hann þykir, og píanótríó í a-moll eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, annað tveggja píanótríóa sem Sveinbjörn samdi á sínum ferli og eru að öllum líkindum þau hin fyrstu sem Íslendingur hefur samið.
Allt frá stofnun árið 1974 hefur Kammersveit Reykjavíkur átt fastan sess í íslensku tónlistarlífi. Sveitin hefur staðið fyrir reglulegum tónleikum í Reykjavík en einnig haldið tónleika víða um land, og farið í ótal tónleikaferðir víða erlendis. Mikilvægur liður í starfi Kammersveitarinnar, allt frá upphafi, hefur verið rækt við frumflutning og upptökur á nýjum íslenskum tónverkum. Kammersveitin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2003 fyrir geisladiska sína með Brandenborgarkonsertum Bachs.
Tónleikarnir þrír eru liður í verkefninu „Tónleikar á landsbyggðinni“ á vegum F.Í.T. og FÍH með styrk úr Tónlistarsjóði. Verkefni þetta hefur verið við lýði, með hléum, frá árinu 1982 en um þrjátíu samstarfsaðilar víða um land koma að því.