Erlent

Mikil reiði í garð kaþólikka

Systir Leonella
Systir Leonella

Benedikt XVI páfi sagðist í gær vera „innilega leiður“ yfir þeim viðbrögðum sem nýleg ummæli hans um íslam hafa valdið. Hann sagði orð sín, að boðskapur Múhameðs hefði verið illur og ómannúðlegur, vera tilvitnun í miðaldatexta sem lýsti ekki hans eigin skoðunum.

„Ég vona að þetta friði hjörtu og skýri hina sönnu merkingu ávarps míns, sem var boð um opinskáa umræðu, með gagnkvæmri virðingu,“ sagði páfinn.

Mikil reiði hefur brotist út meðal múslima í kjölfar ræðunnar. „Annað hvort biðstu afsökunar almennilega eða ekki,“ sagði Mehmet Aydin, innanríkisráðherra Tyrklands. „Ertu leiður yfir að hafa sagt svona lagað, eða ertu leiður yfir afleiðingunum?“

Benedikt XVI páfi

Byssumenn í Sómalíu drápu í gær ítalska nunnu og lífvörð hennar við spítalann, þar sem hún vann við hjálparstörf. Íslamskir bókstafstrúarmenn ráða nú ríkjum í landinu og segir Yusuf Mohamed Siaf, yfirmaður öryggismála þarlendis, að einn hafi verið handtekinn fyrir morðið og annars sé leitað. „Þetta gætu hafa verið menn sem voru ósáttir við ræðu páfa, sem reitti alla múslima heimsins til reiði,“ sagði Siad.

Yfirmenn Vatíkansins vonast enn til að páfi láti verða af ferð sinni til Tyrklands, þrátt fyrir mótmælaölduna. Það yrði fyrsta ferð Benedikts til lands sem er að mestu múhameðstrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×