Erlent

Engar æfingar við Ísland

Victor I. Tatarintsev
 Sendiherra Rússlands á Íslandi.
Victor I. Tatarintsev Sendiherra Rússlands á Íslandi. MYND/Hari

 Rússneski herinn mun ekki halda neinar flotaæfingar nærri Íslandi nú eða síðar á þessu ári, að sögn Victors I. Tatarintsev, sendiherra Rússlands á Íslandi.

Við komumst að því í gegnum fjölmiðla nýverið að íslensk félagasamtök, þar með talin Samtök herstöðvaandstæðinga, hefðu áhyggjur af því að herflotaæfingar yrðu haldnar við Ísland, svo við sendum inn fyrirspurn og fengum opinbert neikvætt svar í morgun frá yfirmanni rússneska sjóhersins, sagði Tatarintsev í samtali við Fréttablaðið.

Hann sagði að þó engin bein fyrirspurn hefði borist rússneska sendiráðinu varðandi málið hefði hann tekið spurninguna til sín.

Þetta voru óbeinar spurningar, en spurningar samt sem áður og því ákváðum við að leita upplýsinga um málið, enda er það réttur hvers einstaklings að spyrja spurninga sem þessara og starf okkar að svara þeim, sérstaklega þegar kemur að málefnum hersins, sagði Tatarintsev.

Samtök herstöðvaandstæðinga gagnrýndu í júní meintar fyrirhugaðar æfingar rússneskra herskipa í grennd við Ísland og óttuðust félagar samtakanna að með í för yrðu kjarnorkuknúin farartæki og skip sem gætu verið búin kjarnavopnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×