Erlent

Ísraelsher tryggir sér svæði

Á sjúkrahúsi í Beirút Frænkurnar Radiah Shaito og Ghadir Shaito liggja særðar á sjúkrahúsi í Beirút. Þriðja frænkan er í heimsókn hjá þeim.
Á sjúkrahúsi í Beirút Frænkurnar Radiah Shaito og Ghadir Shaito liggja særðar á sjúkrahúsi í Beirút. Þriðja frænkan er í heimsókn hjá þeim. MYND/AP

Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, segir að Ísraelar ætli sér upp á eigin spýtur að ákvarða "öryggissvæði" syðst í Líbanon á landræmu meðfram landamærum Ísraels. Þeir ætla sér að verja þetta svæði þangað til annað hvort alþjóðlegar gæslusveitir verða sendar þangað eða samið verður um að skæruliðar Hizbollah-hreyfingarinnar fari frá ísraelsku landamærunum.

Hemi Livni, yfirmaður í ísraelska hernum, útskýrði áform hersins nánar og sagði að þorp og bæir syðst í Líbanon verði umkringd, en ísraelski landherinn ætli ekki að halda lengra inn í landið.

Loftárásir ísraelska hersins á Beirút og þorp sunnantil í Líbanon héldu áfram í gær. Einnig börðust ísraelskir hermenn við liðsmenn Hizbollah í suðurhluta landsins. Þá héldu skæruliðar Hizbollah áfram að skjóta flugskeytum á norðurhluta Ísraels.

Átökin hafa nú staðið í tvær vikur og kostað á fimmta hundrað manns lífið. Flestir hinna látnu eru almennir borgarar í Líbanon.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hitti Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, í Jerúsalem í gær. Einnig hitti hún Mahmoud Abbas, forseta Palestínustjórnar.

Í dag verður síðan haldin í Róm alþjóðleg ráðstefna um Líbanon þar sem reynt verður að stilla til friðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×