Litlum dreng var bjargað úr átján metra djúpri holu á Indlandi í gær. Drengurinn hafði mátt dúsa í holunni í tæpar fimmtíu klukkustundir eða síðan á föstudaginn.
Atvikið vakti mikla athygli um víða veröld þar sem indversk sjónvarpsstöð kom myndavél niður í holuna og var með beina útsendingu af ástandi drengsins og björgunaraðgerðum allan sólarhringinn.
Til að tryggja að holan félli ekki saman og drengurinn græfist inni handgrófu indverskir hermenn nýja holu og tengdu hana við þá fyrri með neðanjarðargöngum.
Samkvæmt indversku sjónvarpsstöðinni Zee var dagur frelsunarinnar einnig fimm ára afmælisdagur piltsins.