Erlent

Níðingar í framboð

Marthijn Uittenbogaard Formaður Flokks bræðralags, frelsis og fjölbreytni.
Marthijn Uittenbogaard Formaður Flokks bræðralags, frelsis og fjölbreytni.

Hollenskur dómstóll neitaði á mánudag að banna stjórnmálaflokk barnaníðinga, sem berst fyrir því að kynlífsaldur verði lækkaður niður í tólf ár úr sextán árum. Dómarinn sagði það vera rétt kjósenda að dæma um lögmæti stjórnmálaflokka.

Ad van den Berg, 62 ára gjaldkeri flokksins, sagðist ekki hissa á úrskurðinum. Við erum ekki að gera neitt ólöglegt, svo það er engin ástæða til að stöðva okkur.

Van den Berg var dæmdur árið 1987 fyrir kynferðisofbeldi gegn ellefu ára dreng, en slapp með sekt og skilorðsbundinn dóm. Hann var hrakinn burt frá hjólhýsagarðinum þar sem hann bjó þegar í ljós kom að hann var í flokknum.

Ritari flokksins, sem er 28 ára, var rekinn úr háskóla, þar sem hann lærði uppeldisfræði, þegar þáttur hans í málinu kom í ljós.

Flokkurinn, sem kallast Flokkur bræðralags, frelsis og fjölbreytni, inniheldur einungis þrjá meðlimi sem vitað er um. Ólíklegt er talið að hann nái þingsæti, en til þess þyrfti hann um 60.000 atkvæði. Skoðanakannanir sýna að hann fengi færri en þúsund.

Lögmaður andstæðinga flokksins segir flokkinn misnota málfrelsið og særa alla þá sem hafi orðið fyrir barðinu á kynferðislegu ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×