Erlent

Búist við langvinnu stríði

Hætta sér út úr skýli Þessir Ísraelar byrjuðu á að kanna aðstæður í gær þegar þeir hættu sér út úr skýli í bænum Nahariya, skammt frá staðnum þar sem flugskeyti frá liðsmönnum Hizbollah varð manni að bana.
Hætta sér út úr skýli Þessir Ísraelar byrjuðu á að kanna aðstæður í gær þegar þeir hættu sér út úr skýli í bænum Nahariya, skammt frá staðnum þar sem flugskeyti frá liðsmönnum Hizbollah varð manni að bana. MYND/AP

Níu af hverjum tíu Ísraelum telja árásir ísraelska hersins á Líbanon eiga fullan rétt á sér, samkvæmt ísraelskri skoðanakönnun sem birt var í gær. Sextíu prósent aðspurðra Ísraela eru þeirrar skoðunar að herinn eigi að halda árásunum áfram þangað til Hizbollah-samtökunum í Líbanon hefur verið tortímt.

Ólíklegt þykir að ísraelsk stjórnvöld ætli sér að hætta hernaðaraðgerðunum í bráðina og virðast þau reikna með langvinnum átökum. Í gær tóku þau þó undir tillögur frá Sameinuðu þjóðunum um að fjölgað verði til muna í alþjóðlegum friðargæslusveitum í suðurhluta Líbanons. Þau virðast einnig hafa fallið frá því skilyrði sínu fyrir friðarsamningum að vopnaðar sveitir Hizbollah-samtakanna verði fyrst lagðar niður.

Í gær fórust ellefu líbanskir hermenn í árásum ísraelska hersins og flugskeyti frá Hizbollah urðu einum ísraelskum manni að bana í ísraelska bænum Nahariya. Alls hafa átökin kostað meira en 230 manns í Líbanon lífið og eru langflestir þeirra óbreyttir borgarar. Flugskeyti sem Hizbollah-samtökin hafa skotið yfir til Ísraels hafa orðið þrettán manns að bana, en tólf ísraelskir hermenn hafa einnig fallið í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×