Erlent

Veiða aðeins helming hrefnukvótans

Hrefnuveiðar Norðmenn hafa veitt lítið af hrefnu í ár.
Hrefnuveiðar Norðmenn hafa veitt lítið af hrefnu í ár.

Norðmenn munu líklega veiða eingöngu um helming hrefnukvótans í ár, kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Norska ríkisstjórnin heimilaði veiðar á 1052 hrefnum í ár, en eingöngu um 450 hvalir hafa verið veiddir nú. Talsmenn hvalveiðimanna segja það ólíklegt að fleiri en 500 hvalir veiðist fyrir ágústlok, en veiðitímabilið stendur yfir frá apríl fram í ágúst.

Segja þeir slæmt veður í byrjun veiðitímabilsins hafa komið í veg fyrir góða veiði, auk þess sem lítið hefur verið um loðnu undanfarið við Noregsstrendur, sem þýðir að hrefnan flytur sig annað í ætisleit.

Náttúruverndarsinnar segja hins vegar að stofninn sé í hættu og það sé ástæðan fyrir lélegri veiði. Jafnframt segja þeir atvinnugreinina í hættu, því Norðmenn eru hættir að borða hrefnu og því eru allar búðir fullar af óseldu hrefnukjöti, að sögn Sue Fisher, talskonu WDCS, samtaka um verndun hvala og höfrunga.

Norska ríkisstjórnin jók kvótann í ár úr 797 dýrum í 1052.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×