Viðskipti erlent

Eurotunnel sekkur í skuldafenið

lest í eurotunnel. Rekstraraðilar ganganna undir Ermarsund hafa farið dómstólaleiðina til að fá að frysta skuldir félagsins.
lest í eurotunnel. Rekstraraðilar ganganna undir Ermarsund hafa farið dómstólaleiðina til að fá að frysta skuldir félagsins. MYND/AFP

Rekstrarfélag Eurotunnel, ganganna sem liggja undir Ermarsundi frá Bretlandi til Frakklands, hefur farið fram á greiðslustöðvun.

Félagið hefur átt við gríðarlegan fjárhagsvanda að stríða allt frá því gangagerðinni lauk árið 1994 og hefur farið þess á leit við lánardrottna að þeir skipti 8,7 milljarða evru skuld Eurotunnel í tvo hluta.

Skuldin svarar til rúmra 824 milljarða króna íslenskra króna. Lánardrottnar hafa fram til þessa ekki stutt tillögu þessa efnis en þeir krefjast þess að rekstrarfélagið greiði hluta skuldanna í reiðufé en afganginn í hlutum í Eurotunnel.

Byggingarkostnaður ganganna undir Ermarsund nam 9,8 milljörðum evra, rúmum 900 milljörðum íslenskra króna. Umferð um göngin hefur ekki verið jafn mikil áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur það komið niður á afkomu rekstrarfélagsins sem er í eigu 800.000 hluthafa.

Verði dómstólar í Frakklandi við beiðni rekstaraðila Eurotunnel þá fær fyrirtækið frest í hálft ár til að hagræða í rekstri og leita frekari samninga við lánardrottna.

Rekstrarfélag Eurotunnel hafði vonast til að ná samningum við lánardrottna og boðaði til hluthafafundar í lok júlí. Fundinum var hins vegar frestað eftir að ákveðið var að fara dómstólaleiðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×