Erlent

Segjast geta sýnt fram á svik

Obrador bendir á skjáinn Sýndi fjölmiðlum upptöku af manni að færa atkvæðaseðla milli kjörkassa.
Obrador bendir á skjáinn Sýndi fjölmiðlum upptöku af manni að færa atkvæðaseðla milli kjörkassa. MYND/Nordicphotos/afp

Vinstrimaðurinn Andrés López Obrador ásakar nú alríkisembættismenn og saksóknara og telur að jafnvel dómarar hafi tekið þátt í kosningasvikum gegn sér fyrr í mánuðinum. Hann sýndi fréttamönnum í gær myndbandsupptöku af manni í Guanajuatofylki, sem var að troða atkvæðaseðlum í kjörkassa í síðustu kosningum.

Í tilkynningu frá yfirkjörstjórn landsins segir að myndbandið sýni kjörstjórnarmann setja atkvæði sem höfðu misfarist aftur á réttan stað og að myndbandið hafi verið mistúlkað.

Stuðningsmenn Obradors heimsækja nú sendiráð í Mexíkó og krefjast þess að ríkisstjórnir erlendra ríkja bjóði ekki Calderón, sigurvegara kosninganna, velkominn til starfa. Fyrst þurfi kosningarnar að fá meðferð fyrir dómstólum. Talsmaður Hvíta hússins í Washington sagði að Bandaríkin virtu hverja þá niðurstöðu sem dómstólar Mexíkó kæmust að, en George W. Bush hefur nú þegar óskað Calderón til hamingju með sigurinn.

Obrador sagði að skipulagðar mótmælaaðgerðir stuðningsmanna hans myndu halda áfram ótímabundið, eða þar til niðurstaða fáist. Hann segist þó ekki binda miklar vonir við að kjördómstólar láti undan kröfum hans um endurtalningu atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×