Erlent

Fundu Artemis í rústunum

Artemis Gyðjan má víst muna fífil sinn fegri, en aldrei er að vita nema höfuð hennar snoppufrítt leynist enn í rústunum.
Artemis Gyðjan má víst muna fífil sinn fegri, en aldrei er að vita nema höfuð hennar snoppufrítt leynist enn í rústunum. MYND/Nordicphotos/Afp

Fornleifafræðingar hafa greint frá fundi tvö þúsund ára gamallar styttu af Artemis, gyðju veiða, villidýra, frjósemi og tunglsins. Dóttir Seifs og Letóar og systir Appolóns er nú höfðinu styttri og útlimalaus, en þó áttatíu og tveggja sentimetra há. Hún fannst í bænum Lárissa í Þessalóníku, miðhluta Grikklands.

Gyðjan fannst meðal tuga brotinna stólpa og áletrana, sem talin eru hafa myndað leikhús í Grikklandi til forna. Í marmarastyttuna er mótaður hefðbundinn stuttur kyrtill og dádýrsfeldur.

Fornleifafræðingarnir fundu einnig mikið af unnum kalksteini og marmarastólpum og um eitt hundrað áletraða steina, sem taldir eru geta varpað nýju ljósi á sögu bæjarins. Einnig er órannsakaður fjöldi muna sem gætu verið enn merkilegri, því uppgröftur er skammt á veg kominn.

Leikhúsið sem geymdi gyðjuna var reist á þriðju öld fyrir okkar tímatal, en hrundi til grunna í jarðskjálfta tveimur öldum síðar. Rómverjar nýttu svo rústir þess til að leggja gangstétt, líklega fyrir leikvang skylmingaþræla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×