Krónunni kastað? 17. mars 2006 02:43 Mér er óskiljanlegt, hvers vegna ágætir forystumenn Framsóknarflokksins gæla við þá hugmynd að taka upp evru. Þeir leiða dreifbýlisflokk, og slíkir flokkar í norðanverðri Evrópu tortryggja Evrópusambandið. Hvað er síðan átt við með því að taka upp evru? Talsmenn Evrópusambandsins hafa margsinnis sagt, að Ísland geti ekki notað evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Íslendingum stendur ekki hið sama til boða og þjóðum, sem standa að Evrópska seðlabankanum. Nú nota sum ríki að vísu Bandaríkjadal í viðskiptum án þess að spyrja leyfis, og önnur tengja gjaldmiðil sinn beint við Bandaríkjadal í föstu hlutfalli. Íslendingar gætu vissulega tekið upp evru af sjálfsdáðum. En þá hefðu þeir engan íhlutunarrétt um gjaldmiðilinn, þar sem þeir ættu ekki aðild að Evrópska seðlabankanum, og misstu auk þess af svonefndum myntsláttuhagnaði, sem seðlabankar hirða. En hvort tveggja er aukaatriði. Meginkosturinn við að taka upp evru er, að gengisáhætta myndi minnka og viðskiptakostnaður lækka. En þessi kostur virðist mikilvægari en hann er. Viðskipti okkar Íslendinga við þjóðir á evrusvæðinu eru þriðjungur utanríkisviðskipta okkar, enda nota sumir viðskiptaþjóðir okkar, svo sem Bretar, Danir og Svíar, ekki evru, þótt þær séu í Evrópusambandinu. Þetta merkir, að í tveimur þriðju viðskipta okkar við útlönd myndi gengisáhætta ekki minnka né viðskiptakostnaður lækka. Böggull fylgir einnig skammrifi. Evran er ekki líkleg til að vera traustur gjaldmiðill, þegar til lengdar lætur. Berum saman Bandaríkin og evrusvæðið. Dalur er notaður á öðru svæðinu öllu, evra á hinu. En tvenns konar munur er á þessum myntsvæðum. Í fyrsta lagi eru Bandaríkin eitt ríki með einni tungu og einni menningu, svo að fólki og fyrirtækjum veitist auðvelt að flytjast úr einum stað í annan, þegar nauðsyn krefur. Ef atvinnuleysi er í Arkansas, en uppgangur í Massachusetts, þá flyst fólk á milli. Slík aðlögun er miklu erfiðari í Evrópu. Er eðlilegt, að vextir séu jafnháir í Grikklandi, þegar allt er þar á niðurleið, og á Írlandi, þar sem atvinnulíf er í örum vexti? Í öðru lagi er bandarískur vinnumarkaður miklu sveigjanlegri en evrópskur, svo að aðlögun að breyttum aðstæðum er þar auðveldari. Þetta merkir, að bandaríski seðlabankinn hefur ekki þurft að taka jafnmikið tillit til aðstæðna úti í atvinnulífinu og hinn evrópski kann síðar meir að þurfa að gera. Hvernig getum við verið viss um, að evra framtíðarinnar muni líkjast frekar þýsku marki en ítalskri líru? Þegar menn tala um það sem náttúrulögmál, að Ísland noti sama gjaldmiðil og löndin á evrusvæðinu, gleyma þeir ekki aðeins Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Stóra-Bretlandi, heldur líka Svisslandi, en svissneski frankinn er einn traustasti gjaldmiðill heims. Ef það er slíkt þjóðráð að taka upp gjaldmiðil nálægs viðskiptavinar, hvers vegna hefur Kanada þá ekki tekið upp Bandaríkjadal og Nýja-Sjáland Ástralíudal? Ástæðan er sú, að þessi ríki vilja hafa þann sveigjanleika í peningamálum, sem fylgir eigin seðlabanka. Þótt um 80 prósent af utanríkisviðskiptum Kanada sé við Bandaríkin, hafa rannsóknir leitt í ljós, að hagsveiflan í Kanada fylgir ekki hinni bandarísku. Hið sama er að segja um hagsveiflur í Nýja-Sjálandi og Ástralíu (auk þess sem aðeins um 20 prósent viðskipta Nýsjálendinga eru við Ástralíu). Þetta á áreiðanlega enn frekar við Ísland. Sjálfur var ég fyrir mörgum árum hlynntur því að kasta krónunni og taka upp Bandaríkjadal. Rökin fyrir því voru, að krónan hefði reynst ónýtur gjaldmiðill ólíkt Bandaríkjadal. Þetta hefur breyst. Upp úr 1991 varð krónan að traustum gjaldmiðli. Þess vegna er engin þörf á að kasta henni. Það er ekkert sáluhjálparatriði að halda uppi eigin gjaldmiðli. En sé krónunni kastað, þá verður að koma í stað hennar gjaldmiðill, sem líklegur sé til að vera traustur til langs tíma. Þar veðja ég frekar á Bandaríkjadal en evru. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hannes Hólmsteinn Gissurarson Skoðanir Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Mér er óskiljanlegt, hvers vegna ágætir forystumenn Framsóknarflokksins gæla við þá hugmynd að taka upp evru. Þeir leiða dreifbýlisflokk, og slíkir flokkar í norðanverðri Evrópu tortryggja Evrópusambandið. Hvað er síðan átt við með því að taka upp evru? Talsmenn Evrópusambandsins hafa margsinnis sagt, að Ísland geti ekki notað evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Íslendingum stendur ekki hið sama til boða og þjóðum, sem standa að Evrópska seðlabankanum. Nú nota sum ríki að vísu Bandaríkjadal í viðskiptum án þess að spyrja leyfis, og önnur tengja gjaldmiðil sinn beint við Bandaríkjadal í föstu hlutfalli. Íslendingar gætu vissulega tekið upp evru af sjálfsdáðum. En þá hefðu þeir engan íhlutunarrétt um gjaldmiðilinn, þar sem þeir ættu ekki aðild að Evrópska seðlabankanum, og misstu auk þess af svonefndum myntsláttuhagnaði, sem seðlabankar hirða. En hvort tveggja er aukaatriði. Meginkosturinn við að taka upp evru er, að gengisáhætta myndi minnka og viðskiptakostnaður lækka. En þessi kostur virðist mikilvægari en hann er. Viðskipti okkar Íslendinga við þjóðir á evrusvæðinu eru þriðjungur utanríkisviðskipta okkar, enda nota sumir viðskiptaþjóðir okkar, svo sem Bretar, Danir og Svíar, ekki evru, þótt þær séu í Evrópusambandinu. Þetta merkir, að í tveimur þriðju viðskipta okkar við útlönd myndi gengisáhætta ekki minnka né viðskiptakostnaður lækka. Böggull fylgir einnig skammrifi. Evran er ekki líkleg til að vera traustur gjaldmiðill, þegar til lengdar lætur. Berum saman Bandaríkin og evrusvæðið. Dalur er notaður á öðru svæðinu öllu, evra á hinu. En tvenns konar munur er á þessum myntsvæðum. Í fyrsta lagi eru Bandaríkin eitt ríki með einni tungu og einni menningu, svo að fólki og fyrirtækjum veitist auðvelt að flytjast úr einum stað í annan, þegar nauðsyn krefur. Ef atvinnuleysi er í Arkansas, en uppgangur í Massachusetts, þá flyst fólk á milli. Slík aðlögun er miklu erfiðari í Evrópu. Er eðlilegt, að vextir séu jafnháir í Grikklandi, þegar allt er þar á niðurleið, og á Írlandi, þar sem atvinnulíf er í örum vexti? Í öðru lagi er bandarískur vinnumarkaður miklu sveigjanlegri en evrópskur, svo að aðlögun að breyttum aðstæðum er þar auðveldari. Þetta merkir, að bandaríski seðlabankinn hefur ekki þurft að taka jafnmikið tillit til aðstæðna úti í atvinnulífinu og hinn evrópski kann síðar meir að þurfa að gera. Hvernig getum við verið viss um, að evra framtíðarinnar muni líkjast frekar þýsku marki en ítalskri líru? Þegar menn tala um það sem náttúrulögmál, að Ísland noti sama gjaldmiðil og löndin á evrusvæðinu, gleyma þeir ekki aðeins Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Stóra-Bretlandi, heldur líka Svisslandi, en svissneski frankinn er einn traustasti gjaldmiðill heims. Ef það er slíkt þjóðráð að taka upp gjaldmiðil nálægs viðskiptavinar, hvers vegna hefur Kanada þá ekki tekið upp Bandaríkjadal og Nýja-Sjáland Ástralíudal? Ástæðan er sú, að þessi ríki vilja hafa þann sveigjanleika í peningamálum, sem fylgir eigin seðlabanka. Þótt um 80 prósent af utanríkisviðskiptum Kanada sé við Bandaríkin, hafa rannsóknir leitt í ljós, að hagsveiflan í Kanada fylgir ekki hinni bandarísku. Hið sama er að segja um hagsveiflur í Nýja-Sjálandi og Ástralíu (auk þess sem aðeins um 20 prósent viðskipta Nýsjálendinga eru við Ástralíu). Þetta á áreiðanlega enn frekar við Ísland. Sjálfur var ég fyrir mörgum árum hlynntur því að kasta krónunni og taka upp Bandaríkjadal. Rökin fyrir því voru, að krónan hefði reynst ónýtur gjaldmiðill ólíkt Bandaríkjadal. Þetta hefur breyst. Upp úr 1991 varð krónan að traustum gjaldmiðli. Þess vegna er engin þörf á að kasta henni. Það er ekkert sáluhjálparatriði að halda uppi eigin gjaldmiðli. En sé krónunni kastað, þá verður að koma í stað hennar gjaldmiðill, sem líklegur sé til að vera traustur til langs tíma. Þar veðja ég frekar á Bandaríkjadal en evru.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun