Bókaskraf í Haukshúsum 12. desember 2005 06:00 Eitt af sérkennum íslensks bókmenntalífs er að rithöfundar eru eins og þeytispjöld um allar þorpagrundir að lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Stundum heyrir maður háðsglósur um þennan sið en mín reynsla af honum sem upplesari og hlustandi er yfirleitt góð. Það ríkir einhver innileiki á svona samkomum. Manni getur að vísu liðið svolítið illa þegar upplesara líður illa og fer að klóra sér á hálsinum í miðju kafi, hnykla brýnnar eða jafnvel dæsa en yfirleitt er það svo að maður kemst í beint samband við list höfundarins, stíl og persónuleika. Þetta er bein upplifun. Þetta er vafningalaus bókmenntanautn. Ein slík var á dögunum í minnsta menningarhúsi landsins, Haukshúsum á Álftanesi. Þar voru fimm ólíkir einstaklingar sem lásu úr verkum sínum. Fyrstur las Jón Kalman, að eigin sögn til að geta einbeitt sér betur að því að hlusta á hina. Það var veglegt, því að alltaf er erfitt að ríða á vaðið á svona samkomum, draga liðið burt frá búksorgum sínum, jólagjafaangist og kökugerðaráformum: Jón stóð sig hetjulega og er bersýnilega búinn að koma sér upp sérlegum og nærfærnislegum stíl; kannski að nota mætti orðið "þorpsljóðræna". Sjón var næstur. Hann er meistari upplestrarins. Hefur fullkomið vald á minnstu blæbrigðum textans, er sköruglegur og valdsmannslegur þegar hann les, krefst þess að við hættum að hugleiða kökur og fylgjum honum inn í horfinn/fundinn heim. Með hverri bók mýkist áferð textans, sem rétt eins og í undanförnum bókum er fornfálegur og skringilega vandaður á einhvern hrífandi hátt. Skugga Baldur var svo sannarlega besta skáldsaga síðustu ára og ég hlakka til að lesa þessa nýju. Vilborg Davíðsdóttir er búin að finna sitt sérsvið sem eru sögulegar spennusögur, vel skrifaðar og útfærðar, og ekki síður um vert að mikil rannsókn býr alltaf að baki svo að lesandi verður margs vísari - að þessu sinni um sambúð norræna manna og inúíta á Grænlandi á 15. öld, nokkru áður en við höfðum síðast spurnir af þeim fyrrnefndu, og erum enn að velta því fyrir okkur hvað um þá varð. Vilborg las hæversklega en af festu og svo mikið gekk á í textanum að heyra mátti saumnál detta í litla menningarhúsinu. Eftir hlé lásu þeir Hallgrímur Helgason og Þórarinn Eldjárn. Hallgrímur fékk geysigóðar undirtektir með fjörugum lestri úr hinum undursamlega fyrri hluta Roklands, þar sem sérhver síða iðar af raunverulegu mannlífi og sérhvert orð er ritað af sorg yfir mönnunum; og persónan Böddi Steingríms – þessi grettir - eins og aðalpersónan í Confederacy of Dunces stödd í sporum kennarans í Dead poet society. Þegar Hallgrímur les fleygir hann sér fyrir fætur okkar; og að þessu sinni var það þakklátt hlutskipti fyrir hann að lesa því að salurinn var orðinn mjúkur og ástríkur. Þórarinn Eldjárn hafði nefnilega lesið á undan honum úr nýrri ljóðabók sinni, Hættir og mörk. Hljóta það ekki að teljast ein helstu tíðindi þessa bókmenntaárs að Þórarinn skuli nú senda frá sér ljóðabók handa fullorðnu fólki, þá fyrstu í fjöldamörg ár? Skyldi fólk almennt vita af þessu? Þórarinn Eldjárn hefur stundum fengið þá gagnrýni - að þjóðlegum íslenskum sið - að hann sé eiginlega of góður. Of fyndinn, of hittinn, of hagur, of kjarnsær, of skiljanlegur. Ljóð hans hafa að geyma svo tæra hugsun að þau hitta okkur beint í hausinn, og sú hugsun er yfirleitt óvænt, ný: með öðrum orðum fyndin í allri merkingu þess góða orðs. Tilnefningahneykslið í ár er fjarvera þessarar bókar. Bókaár þegar bæði stórskáldið Þorsteinn frá Hamri og Þórarinn eru með bók - hlýtur það ekki að vera ár ljóðsins? Þetta er gott bókaár. Ég hlakka til að lesa bók Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, Hinir sterku og Jón Hallur er sagður hafa gert góða glæpasögu sem mig langar að kynna mér. Af ævisögum stendur bókin um Hannes Hafstein upp úr. Guðjóni Friðrikssyni er sérlega sýnt um að skrifa af sanngirni og réttsýni og hæfilegri innlifun - ég held að honum hafi tekist það sem frænda mínum Kristjáni Albertssyni tókst aldrei: að gera mig að Heimastjórnarmanni. Hins vegar verður Guðjón að fara að læra að nota þátíð. Talandi um frændur: Thorsarana eftir Guðmund Magnússon renndi ég líka yfir og fræddist um margt; greinargóð og fróðleg bók, prýðilega skrifuð og læsileg. Að vísu fannst mér að heimildaöflun um mína prívatgrein fjölskyldunnar, og heimilisbrag á Bergstaðastrætinu hjá afa og ömmu, hefði mátt vera vandaðri, en ég fæ víst engu ráðið um það... Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Eitt af sérkennum íslensks bókmenntalífs er að rithöfundar eru eins og þeytispjöld um allar þorpagrundir að lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Stundum heyrir maður háðsglósur um þennan sið en mín reynsla af honum sem upplesari og hlustandi er yfirleitt góð. Það ríkir einhver innileiki á svona samkomum. Manni getur að vísu liðið svolítið illa þegar upplesara líður illa og fer að klóra sér á hálsinum í miðju kafi, hnykla brýnnar eða jafnvel dæsa en yfirleitt er það svo að maður kemst í beint samband við list höfundarins, stíl og persónuleika. Þetta er bein upplifun. Þetta er vafningalaus bókmenntanautn. Ein slík var á dögunum í minnsta menningarhúsi landsins, Haukshúsum á Álftanesi. Þar voru fimm ólíkir einstaklingar sem lásu úr verkum sínum. Fyrstur las Jón Kalman, að eigin sögn til að geta einbeitt sér betur að því að hlusta á hina. Það var veglegt, því að alltaf er erfitt að ríða á vaðið á svona samkomum, draga liðið burt frá búksorgum sínum, jólagjafaangist og kökugerðaráformum: Jón stóð sig hetjulega og er bersýnilega búinn að koma sér upp sérlegum og nærfærnislegum stíl; kannski að nota mætti orðið "þorpsljóðræna". Sjón var næstur. Hann er meistari upplestrarins. Hefur fullkomið vald á minnstu blæbrigðum textans, er sköruglegur og valdsmannslegur þegar hann les, krefst þess að við hættum að hugleiða kökur og fylgjum honum inn í horfinn/fundinn heim. Með hverri bók mýkist áferð textans, sem rétt eins og í undanförnum bókum er fornfálegur og skringilega vandaður á einhvern hrífandi hátt. Skugga Baldur var svo sannarlega besta skáldsaga síðustu ára og ég hlakka til að lesa þessa nýju. Vilborg Davíðsdóttir er búin að finna sitt sérsvið sem eru sögulegar spennusögur, vel skrifaðar og útfærðar, og ekki síður um vert að mikil rannsókn býr alltaf að baki svo að lesandi verður margs vísari - að þessu sinni um sambúð norræna manna og inúíta á Grænlandi á 15. öld, nokkru áður en við höfðum síðast spurnir af þeim fyrrnefndu, og erum enn að velta því fyrir okkur hvað um þá varð. Vilborg las hæversklega en af festu og svo mikið gekk á í textanum að heyra mátti saumnál detta í litla menningarhúsinu. Eftir hlé lásu þeir Hallgrímur Helgason og Þórarinn Eldjárn. Hallgrímur fékk geysigóðar undirtektir með fjörugum lestri úr hinum undursamlega fyrri hluta Roklands, þar sem sérhver síða iðar af raunverulegu mannlífi og sérhvert orð er ritað af sorg yfir mönnunum; og persónan Böddi Steingríms – þessi grettir - eins og aðalpersónan í Confederacy of Dunces stödd í sporum kennarans í Dead poet society. Þegar Hallgrímur les fleygir hann sér fyrir fætur okkar; og að þessu sinni var það þakklátt hlutskipti fyrir hann að lesa því að salurinn var orðinn mjúkur og ástríkur. Þórarinn Eldjárn hafði nefnilega lesið á undan honum úr nýrri ljóðabók sinni, Hættir og mörk. Hljóta það ekki að teljast ein helstu tíðindi þessa bókmenntaárs að Þórarinn skuli nú senda frá sér ljóðabók handa fullorðnu fólki, þá fyrstu í fjöldamörg ár? Skyldi fólk almennt vita af þessu? Þórarinn Eldjárn hefur stundum fengið þá gagnrýni - að þjóðlegum íslenskum sið - að hann sé eiginlega of góður. Of fyndinn, of hittinn, of hagur, of kjarnsær, of skiljanlegur. Ljóð hans hafa að geyma svo tæra hugsun að þau hitta okkur beint í hausinn, og sú hugsun er yfirleitt óvænt, ný: með öðrum orðum fyndin í allri merkingu þess góða orðs. Tilnefningahneykslið í ár er fjarvera þessarar bókar. Bókaár þegar bæði stórskáldið Þorsteinn frá Hamri og Þórarinn eru með bók - hlýtur það ekki að vera ár ljóðsins? Þetta er gott bókaár. Ég hlakka til að lesa bók Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, Hinir sterku og Jón Hallur er sagður hafa gert góða glæpasögu sem mig langar að kynna mér. Af ævisögum stendur bókin um Hannes Hafstein upp úr. Guðjóni Friðrikssyni er sérlega sýnt um að skrifa af sanngirni og réttsýni og hæfilegri innlifun - ég held að honum hafi tekist það sem frænda mínum Kristjáni Albertssyni tókst aldrei: að gera mig að Heimastjórnarmanni. Hins vegar verður Guðjón að fara að læra að nota þátíð. Talandi um frændur: Thorsarana eftir Guðmund Magnússon renndi ég líka yfir og fræddist um margt; greinargóð og fróðleg bók, prýðilega skrifuð og læsileg. Að vísu fannst mér að heimildaöflun um mína prívatgrein fjölskyldunnar, og heimilisbrag á Bergstaðastrætinu hjá afa og ömmu, hefði mátt vera vandaðri, en ég fæ víst engu ráðið um það...
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun