Lífið

Fasteignamat hækkar um 13%

Fasteignamat íbúða hækkar um 13% víðast hvar suðvestanlands um áramótin. Fasteignamat sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu hækkar þó um 20%. Mest hækkar matið um 30% í Fjarðabyggð og á sérbýli á Seltjarnarnesi. Ljóst er að hækkun fasteignamats er mun meiri en sveitarfélög voru almennt að gera ráð fyrir við gerð fjárhagsáætlana í haust. Þannig áætlaði Reykjavíkurborg 12% tekjuaukningu af fasteignasköttum af íbúðarhúsnæði en 9% af atvinnuhúsnæði og samþykkti í því skyni tæplega 8% hækkun á skattprósentu fasteignaskatta. Nú kemur til viðbótar 13-20% hækkun fasteignamats í Reykjavík þannig að íbúar höfuðborgarinnar mega reikna með 20-28% hækkun fasteignaskatta um áramótin. Hækkun fasteignamats endurspeglar þróun fasteignaverðs í landinu á árinu. Mest hækkun verður 30% á íbúðarhúsnæði í Fjarðarbyggð, en þar er verið að reisa álver, og á sérbýli á Seltjarnarnesi. Næstmest hækkun er 20% á íbúðum á Egilsstöðum og á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. 17% hækkun verður í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Hveragerði, Grindavík, Sauðárkróki, Varmahlíð, Vopnafirði, Fáskrúðsfirði, Kirkjubæjarklaustri, Hellu og sveitarfélaginu Árborg. Flestir lenda í 13% hækkun en hún gildir meðal annars um fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu og íbúðir á Suðurnesjum og Akureyri, sem og atvinnuhúsnæði á þessum svæðum. 10% hækkun verður meðal annars í Borgarnesi, á Snæfellsnesi, Ísafirði og Húsavík. Engin hækkun verður hins vegar á fasteignamati á Vestfjörðum, utan Ísafjarðar, á Siglufirði og á Höfn í Hornarfirði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×