Lífið

Þar sem kisulóran kúrir

Efniviður í gluggakistur er af mörgu tagi og í raun er hægt að nota hvaða efni sem er, sem ber vissan þunga. Algengast er að settar séu plastaðar gluggakistur í gluggana en einnig er mikið notast við límtré og lakkaðar mdf-plötur. Í eldri húsum og sumarbústöðum er viður gjarnan notaður og þá helst fura. Marmari er einnig klassískt og endingargott efni. Plastaðar gluggakistur eru einfaldar og nánast viðhaldsfríar en önnur efni gætu þarfnast meira viðhalds. Límtré sem er lakkað heldur sér nokkuð vel en sé það olíuborið, sem er orðið mjög algengt, þarf að halda olíunni við, sem er ekki mikið mál. Viðargluggakistur þarf að lakka og varast að raki safnist innan á rúðurnar og leki niður á gluggakistuna. Bleytan setur bletti í lakkið eða hleypir því upp. Best er því að hafa smá rifu á glugganum eða hafa gardínur aðeins opnar svo loftið lokist ekki inni við rúðuna heldur sé á hreyfingu. Hafa skal í huga þegar efni í gluggakistu er keypt að vera með nákvæmt mál, meðal annars af raufinni í glugganum. Falleg gluggakista er húsprýði, þar setjum við skraut og blóm, auk þess sem kisa kúrir þar gjarnan. Einnig finnst litlum börnum gaman að styðja olnbogum á gluggakistuna og horfa á heiminn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×