Lífið

Nýta rýmið sem best

Það getur verið stórskemmtilegt að innrétta barnaherbergi enda er þar tækifæri til að láta ímynduraflið njóta sín. Steinunn Jónsdóttir innanhússarkitekt segir að fyrstu skrefin við að skipuleggja herbergi séu þau sömu og þegar um önnur herbergi er að ræða. Í fyrsta lagi er það skipulagning þar sem leitast er við að nýta rýmið sem best. Mikilvægt sé að velja húsgögn sem falla vel að rýminu og með tilliti til þess að nota þau. Rúmið má til dæmis ekki vera það fínt að ekki megi leika í því og skrifborð þarf að nýtast í fleira en bara heimalærdóminn. Í öðru lagi þarf að huga að litavali og lýsingu sem skiptir miklu máli hvað varðar stemninguna í herberginu. Steinunn segir að varast skuli að hafa mikið af sterkum litasamsetningum, velja frekar milda og fallega liti án þess þó að draga úr líflegheitum herbergisins. Lýsing er gífurlega mikilvæg og er atriði sem er oft ekki nægilega sinnt að mati Steinunnar. Oft sé staðan sú að eitt ljós sé sett í loftið og látið nægja en sú birta nýtist ekki nægilega vel. Að sjálfsögðu þarf að vera gott ljós í loftinu en á náttborði og við skrifborð þarf að hafa sérstakt ljós. Ef kveikt er aðeins á lömpum og loftljósið slökkt þá getur það breytt leikherbergi í svefnherbergi á svipstundu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×