Lífið

Ævintýrahús í garðinum

Litlar stúlkur dreymir gjarnan um dúkkuhús í garðinum en fæstar sjá drauminn rætast á sama hátt og Rakel Stefánsdóttir, 6 ára Hafnarfjarðarmær, sem á sitt eigið litla einbýlishús með öllu í garðinum við Herjólfsgötu 10 í Hafnarfirði. Húsið smíðaði pabbi hennar, Stefán Hákonarson, og mamma hennar, Elín Árnadóttir, saumaði gardínur og málaði á skilti við húsið. Þar að auki hefur Rakel sinn eigin póstkassa, falleg blóm í blómakassa fyrir utan gluggann og litla verönd. Inni eru hillur, borð og stólar og aðstaða til að bjóða gestum og gangandi upp á "kaffi og kökur" sem blaðamaður þiggur með þökkum. Rakel notar húsið sitt mikið og segist oft leika sér þar með vinum sínum og frændsystkinum. Stefán, sem er smiður að mennt, gekk lengi með hugmyndina að húsinu í maganum. "Hér á lóðinni býður öll aðstaða upp á þetta. Ég vildi hafa húsið vandað heilsárshús," segir Stefán og hlær, "ekki hús sem fýkur í fyrsta roki." Stefán og Elín teiknuðu húsið í sameiningu og hófust svo handa. "Draumurinn var að hafa það ævintýralegt og fallegt, það urðu til dæmis að vera hjörtu í gluggahlerunum," segir Elín hlæjandi. "Við vorum smá tíma að ákveða þakskeggið og upphaflega áttu að vera girðingarstaurar í girðingunni en svo fannst okkur fallegra að hafa "claustra" eða fléttugirðingu. "Við erum öll jafn ánægð með útkomuna," segir Stefán og Rakel litla kinkar kolli til samþykkis. Þau hjón eiga samanlagt tíu börn og sjö barnabörn, en Rakel er sú fyrsta sem eignast svona flott dúkkuhús. "Barnabörnin kunna vel að meta þetta," segir Stefán sem hyggur á smíði fleiri húsa fyrir fjölskyldumeðlimina og svo tekur hann að sér að smíða svona hús fyrir þá sem óska. Stefán smíðar líka palla og hvað eina sem fólk vanhagar um í garðinn sinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×