Fótbolti

Gróður­setja tvö ­hundruð tré fyrir hvert skorað mark

Aron Guðmundsson skrifar
Miklir gróðureldar hafa geisað í Portúgal undanfarna daga
Miklir gróðureldar hafa geisað í Portúgal undanfarna daga Vísir/Getty

Forráðamenn portúgölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta hafa ákveðið að fyrir hvert mark, sem skorað verður í leikjum helgarinnar í sjöttu umferð deildarinnar, muni deildin gróðursetja tvö hundruð tré. 

Er þetta svar deildarinnar við miklum gróðureldum sem geisað hafa í Portúgal undanfarna daga. Sjö hafa látið lífið í tengslum við gróðureldana, þeirra á meðal eru þrír slökkviliðsmenn sem störfuðu við að reyna slökkva eldana

Mínútuþögn verður fyrir alla leiki portúgölsku deildarinnar um helgina, slökkviliðshjálmur verður settur niður á miðju vallarins fyrir leik og þá munu fyrirliðar liðanna ganga inn á völlinn í jakka sem notaður er af slökkviliðsmönnum í Portúgal. 

Nú þegar er einum leik lokið í sjöttu umferðinni. Braga bar 3-0 sigur úr býtum gegn Nacional í kvöld. Þrjú mörk skoruð þýða sex hundruð tré til að gróðursetja fyrir portúgölsku deildina. Búast má við því að þessi tala verði mun hærri eftir leiki helgarinnar.

Frá upphafi gróðureldanna þann fimmtánda september síðastliðinn telja yfirvöld í Portúgal að yfir 119 þúsund hektarar af landi hafi brunnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×