Innlent

Stöðvuðu starf­semi Hrís­eyjar Sea­food

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Hrísey.
Frá Hrísey. Vísir/Egill

Matvælafyrirtækið sem Matvælastofnun gerði að hætta starfsemi í síðustu viku, vegna alvarlegra frávika frá matvælalögum, er Hrísey Seafood. Fiskvinnslu félagsins var lokað og má ekki opna aftur fyrr en úrbætur hafa verið gerðar.

Frá þessu greinir Ríkisútvarpið, en fyrr í dag var greint frá því að MAST hefði stöðvað starfsemi matvælafyrirtækis á Norðurlandi eystra í síðustu viku. Stöðinni hafi verið lokað 5. júlí, eftir að eftirlit leiddi í ljós „mörg alvarleg frávik sem fólu í sér brot á matvælalögum og reglugerðum byggðum á þeim sem settar eru til að tryggja öryggi og heilsu neytenda.“

Því hafi verið settar fram kröfur um umfangsmiklar úrbætur, sem séu forsendur þess að starfsemi fyrirtækisins verði leyfð að nýju. 

Sjaldgæft að starfsemi sé stöðvuð

Ríkisútvarpið hefur eftir forstjóra MAST, Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, að hún geti ekki upplýst frekar um hvers eðlis frávikin eru. Stofnunin telji þó óforsvaranlegt að matvælum frá fyrirtækinu væri dreift að svo búnu. Fátítt sé að MAST stöðvi starfsemi fyrirtækja með þessum hætti, og málið sé það fyrsta sinnar tegundar á árinu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hrísey Seafood ratar í fréttir, en í maí 2020 kviknaði mikill eldur í frystihúsi fyrirtækisins, þannig að stórtjón hlaust af. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×