Sport

Sól­ey Margrét aftur Evrópu­meistari

Sindri Sverrisson skrifar
Sóley Margrét Jónsdóttir efst á palli í Lúxemborg í dag.
Sóley Margrét Jónsdóttir efst á palli í Lúxemborg í dag. KRAFT

Sóley Margrét Jónsdóttir varð í dag Evrópumeistari í kraftlyftingum með búnaði og varði þar með titilinn frá því í fyrra, í +84 kg flokki.

Sóley lagði grunninn að sigrinum í bekkpressuhlutanum, þar sem hún setti Íslandsmet með því að lyfta 192,5 kg og stóð sig best allra.

Hún hafði áður fengið silfur í hnébeygjunni með því að lyfta mest 280 kg, en hún gerði allar þrjár lyftur sínar þar gildar.

Enn var þó spenna fyrir lokagrein kraftlyftinganna, réttstöðulyftuna, því hin úkraínska Valentyna Zahouruik hafði ekki játað sig sigraða.

Sóley lyfti þar mest 205 kg og fékk silfur en varð að bíða og sjá hvort Valentynu tækist að lyfta 230 kg. Það tókst henni hins vegar ekki og titillinn því áfram í eigu Sóleyjar.

Sóley, sem er aðeins 23 ára gömul, lyfti samtals 677,5 kg og bætti eigið Íslandsmet um 2,5 kg, og fer því með frábærar minningar heim frá Hamm í Lúxemborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×