Fótbolti

Hlín allt í öllu í sigri Kristianstad

Sindri Sverrisson skrifar
Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir var áberandi í sigri Kristianstad í dag.
Landsliðskonan Hlín Eiríksdóttir var áberandi í sigri Kristianstad í dag. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Hlín Eiríksdóttir var í aðalhlutverki í dag þegar Kristianstad vann 3-1 sigur á Trelleborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Hlín átti stoðsendingu í öðru marki Kristianstad, á 29. mínútu, og skoraði svo sjálf þriðja markið snemma í seinni hálfleik. Það gerði hún með skalla eftir sendingu frá Guðnýju Árnadóttur, samherja sínum úr íslenska landsliðinu.

Íslendingarnir þrír í Kristianstad léku allan leikinn því Katla Tryggvadóttir var að sjálfsögðu einnig í liðinu, eftir tvennuna gegn Örebro á fimmtudaginn.

Kristianstad hefur nú unnið þrjá leiki í röð og er í 4. sæti deildarinnar með 12 stig eftir sex leiki, þremur stigum á eftir toppliðum Rosengård og Hammarby sem eru með fullt hús stiga eftir fimm leiki.

Trelleborg er næstneðst með aðeins eitt stig eftir sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×