Fótbolti

Ís­lensku stelpurnar eru skalla­drottningar sænsku deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Arnadóttir var sá leikmaður í sænsku deildinni sem skoraði flest skallamörk en hún skoraði fimm slík fyrir Rosengard í ár.
Guðrún Arnadóttir var sá leikmaður í sænsku deildinni sem skoraði flest skallamörk en hún skoraði fimm slík fyrir Rosengard í ár. Getty/Jonathan Nackstrand

Íslenska kvennalandsliðið á góða skallamenn og það hafa okkar landsliðskonur líka sýnt og sannað á þessu tímabili.

Ísland átti þannig tvo bestu skallamenn sænsku deildarinnar á tímabilinu ef við miðum við það hvaða leikmenn Damallsvenskan skoruðu flest skallamörk á leiktíðinni. Þetta má sjá á tölfræðisíðu sænsku deildarinnar.

Miðvörðurinn Guðrún Arnadóttir var ekki aðeins öflug í loftinu í vörninni því hún var einnig skalladrottning deildarinnar. Guðrún skoraði fimm af sex mörkum sínum með höfðinu.

Guðrún skoraði flest skallamörk í deildinni og í öðru sæti var síðan Hlín Eiríksdóttir með fjögur skallamörk. Hlín deildi öðru sætinu með Evelyn Ijeh hjá Växjö sem var einnig með fjögur skallamörk.

Hlín skoraði ellefu mörk í 26 leikjum á tímabilinu og 36 prósent þeirra komu því með skalla.

Hlín var líka meðal atkvæðamestu leikmönnum deildarinnar en hún kom alls að átján mörkum Kristianstad liðsins. Hlín var einnig með sjö stoðsendingar auk markanna ellefu.

Aðeins fimm leikmenn Damallsvenskan komu að fleiri mörkum í sænsku deildinni en Hlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×