Innlent

Neituðu að segja til nafns eða gefa upp kenni­tölu

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Yfir hundrað mál voru á skrá lögreglunnar í gærkvöldi og nótt.
Yfir hundrað mál voru á skrá lögreglunnar í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði nóg að gera í gærkvöldi og nótt. Í Vesturbænum voru skötuhjú í annarlegu ástandi handtekin og vistuð í fangaklefa vegna líkamsárásar og eignaspjalla.

Maður sem var til vandræða og er grunaður um líkamsárásir á og við skemmtistaði var handtekinn í Miðborginni og vistaður í fangaklefa.

Í Breiðholtinu var tilkynnt um brot í atvinnuhúsnæði. Þjófarnir voru á bak og burt þegar lögregla koma á staðinn. Þar var líka manni vísað á brott úr fjölbýlishúsi þar sem hann hafði verið til vandræða og haldið vöku fyrir íbúum hússins.

Í Árbænum voru tveir handteknir og vistaðir í fangaklefa eftir að hafa verið til vandræða í húsnæði. Þeir voru báðir mjög ölvaðir og fylgdu ekki fyrirmælum lögreglu. Bæði neituðu þeir að segja til nafns eða gefa upp kennitölu.

Í Kórahverfinu í Kópavogi voru unnin skemmdarverk á skóla.

Þá voru fjölmargir stútar stoppaðir, undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Sumir reyndust einnig vera án ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×