Veður

Hiti fer yfir tuttugu stig

Eiður Þór Árnason skrifar
Maður nýtur sín í hengirúmi á Austurvelli.
Maður nýtur sín í hengirúmi á Austurvelli. Vísir/Vilhelm

Bjart veður verður víða um land í dag og á morgun og fer hiti yfir tuttugu stig syðra þegar best lætur. Spáð er norðlægri eða breytilegri átt, þremur til átta metrum á sekúndu og víða bjartviðri, en skýjað með köflum vestast og sums staðar þokuloft við ströndina með kvöldinu.

Hægviðri og bjart með köflum verður á morgun, en víða þokuloft við sjávarsíðuna í kvöld og í nótt og jafnvel áfram á morgun. Hiti víða ellefu til 21 stig, hlýjast syðst, en mun svalara í þokuloftinu.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands að yfir landinu sé dálítill hæðarhryggur og vindar því almennt hægir. 

Þykkni upp sunnan og vestan til á landinu aðfaranótt þriðjudags og dálítil rigning með köflum þar undir morgun, en kólni þá heldur í kölfarið. Á Norðausturlandi haldist þó bjart og ætti hiti að ná 15 til 16 stigum yfir hádaginn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og skýjað með köflum vestast á landinu, annars víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 12 til 20 stig yfir daginn, en svalara í þokunni.

Á þriðjudag: Austlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, skýjað með köflum og stöku skúrir, en léttskýjað norðaustantil. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á miðvikudag og fimmtudag: Suðlæg átt, 3-8 m/s, skýjað að mestu og víða dálitlir skúrir. Hiti 6 til 13 stig.

Á föstudag og laugardag: Suðvestlæg eða breytileg átt og skúrir eða rigning víða um land. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×