Innlent

Munu fljúga tvisvar í viku til Vest­manna­eyja

Atli Ísleifsson skrifar
Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020.
Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020. Ernir

Samkomulag hefur náðst milli flugfélagsins Ernis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um að Ernir muni sinna áætlunarflugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja tvisvar í viku. Flogið verður á mánudögum og föstudögum. 

Í tilkynningu frá Erni segir að samkomulagið sé gert í ljósi þess að eftirspurn í innanlandsflugi hafi dregist mikið saman í faraldrinum og að ljóst sé flug til Eyja muni ekki hefjast, að óbreyttu, að nýju á markaðslegum forsendum. 

„Að mati ráðuneytisins var því talið nauðsynlegt að tryggja tímabundið lágmarksþjónustu á flugi til og frá Vestmannaeyjum í vetur á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda flugið mjög mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum.

Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar . Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi möguleika á að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri,“ segir í tilkynningunni. 

Þá segir að flug í kringum hátíðirnar verði með aðeins öðrum hætti en þegar föst áætlun byrji í upphafi nýs árs og sé fólki bent á áætlun og upplýsingar um flug á vefsíðu félagsins ernir.is, en fyrsta flug verður á Þorláksmessu. 


Tengdar fréttir

Segir erfitt að keppa við niður­greiddan sam­göngu­máta

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, segir það ekki koma til af góðu að félagið hafi ákveðið að hætta flugi til Vestmannaeyja. Margt þurfi að koma til svo ákvörðunin yrði dregin til baka og róðurinn á innanlandsflugmarkaði sé þungur.

Air Iceland hyggst hefja flug til Vestmannaeyja næsta vor

Stjórnendur Air Iceland Connect hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja næsta vor. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyja frá fundi ráðsins, sem lauk um kvöldmatarleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×