Innlent

Leggjast gegn smá­hýsum fyrir heimilis­lausa í Laugar­dal

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Smáhýsin eiga að rísa í Laugardalnum.
Smáhýsin eiga að rísa í Laugardalnum. vísir/vilhelm

Borgar­full­trúum Sjálf­stæðis­flokksins líst ekkert á á­form meiri­hlutans um að koma upp smá­hýsum fyrir heimilis­laust fólk í Laugar­dalnum og finnst að dalurinn eigi að „fá að vera í friði fyrir í­búða­á­formum“. Meiri­hlutinn vill koma þeim fyrir í Laugar­dalnum þar sem ekki hefur reynst auð­velt að ná sátt um slík úr­ræði fyrir heimilis­lausa í í­búða­byggð.

Málið var rætt á fundi borgar­ráðs í dag og sam­þykkt með fjórum at­kvæðum borgar­full­trúa meiri­hlutans gegn þremur at­kvæðum borgar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins.

Í bókun Sjálf­stæðis­manna segir: „Á­form um smá­hýsi í Laugar­dal stangast á við þau sjónar­mið sem hafa ríkt um að Laugar­dalurinn verði griða­staður út­vistar og í­þrótta. Ekki á að heimila í­búða­byggð með neinum hætti í Laugar­dalnum enda verður enn meiri þörf fyrir dalinn sem úti­vistar- og í­þrótta­svæði í fram­tíðinni en nú er.“

Í bókuninni segir þó mikil­vægt að taka á vanda húns­æðis­lauss fólks en það verði að gera með „raun­hæfum og góðum lausnum“.

Tímabundið úrræði

Smá­hýsin eru hluti hug­mynda­fræði vel­ferðar­sviðs sem er kölluð „hús­næði fyrst“ og er hugsuð til að hjálpa fólki sem hefur verið heimilis­laust og hefur miklar þjónustu­þarfir.

„Hafa ber í huga að þó þessi hús séu tíma­bundin í stað­setningu sinni þá eru þau heimili fólks, ekki dvalar­heimili eða lokuð stofnun, og þurfa að vera ná­lægt þeirri þjónustu og sam­fé­lagsinn­viðum sem borgar­búar þurfa að nýta. Ekki er auð­velt ná sátt um stað­setningu þeirra í í­búða­byggð eða blandaðri byggð og því þarf að leita á staði sem eru í námunda við sömu inn­viði á öðrum skipu­lags­svæðum,“ segir í bókun meiri­hlutans.

Laugar­dalurinn sé opið svæði og sam­kvæmt gildandi aðal­skipu­lagi megi koma bú­setu­ú­ræðum fyrir á slíku svæði. Þó beri að hafa í huga að þau séu víkjandi og hafi ekki á­hrif á lang­tíma­notkunar­mögu­leika svæðisins.

„Full­trúar meiri­hlutans telja að ná­lægð við úti­vistar­svæði, al­mennings­sam­göngur og sam­fé­lagsinn­viði muni hafa já­kvæð á­hrif á þau sem þar munu koma til með að búa og vona að hverfið taki vel á móti þeim,“ segir í bókun full­trúa meiri­hlutans; Sam­fylkingarinnar, Við­reisnar, Píratar og Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×