Fótbolti

Juventus og þeir stærstu á Spáni vilja Evrópu­meistarann

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jorginho fagnar á EM þar sem hann átti ansi gott mót, líkt og flestir þeir ítölsku.
Jorginho fagnar á EM þar sem hann átti ansi gott mót, líkt og flestir þeir ítölsku. EPA-EFE/Justin Tallis

Juventus og stærstu félög Spánar vilja ólm fá hinn ítalska Jorginho til liðs við sig, að sögn umboðsmanns hans.

Jorginho átti frábært Evrópumót með Ítalíu sem stóð uppi með gullið á EM 2020 eftir vítaspyrnukeppni gegn Englandi.

Þetta er ekki eina gullið sem hann hefur hirt á árinu því hann var einnig í liði Chelsea sem fór alla leið í Meistaradeildinni.

„Juventus og Jorginho? Það hafa verið viðræður nýlega en einnig með öðrum stórum félögum,“ sagði Joao Santos í samtali við Calciomercato.it.

„Ég get staðfest að það er áhugi. Sem 29 ára gamall leikmaður getur hann gert það gott í öllum evrópsku toppfélögunum og það er mikill áhugi á honum.“

Jorginho hefur spilað með Chelsea síðan 2018 þar sem hann hefur spilað 141 leiki og skorað sautján mörk.

„Hann er með tveggja ára samning við Chelsea og þetta er í höndunum á félaginu. Félagaskiptamarkaðurinn er markaður og ef það kemur stórt félag og áhugasamt munum við íhuga það.“

„Í augnablikinu mun Jorginho spila með Chelsea á næstu leiktíð,“ sagði umboðsmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×