Fótbolti

Agüero í fremstu víglínu hjá Barcelona

Sindri Sverrisson skrifar
Sergio Agüero fékk silfurmedalíu um hálsinn í Portúgal á laugardagskvöld, eftir tapið gegn Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildar, og gekk svo frá málum við Barcelona.
Sergio Agüero fékk silfurmedalíu um hálsinn í Portúgal á laugardagskvöld, eftir tapið gegn Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildar, og gekk svo frá málum við Barcelona. Getty/Marc Atkins

Barcelona kynnti í dag argentínska sóknarmanninn Sergio Agüero sem sinn nýjasta liðsmann. Agüero snýr þar með aftur til Spánar eftir að hafa verið afar sigursæll með Manchester City síðastliðinn áratug.

Samningur Agüeros við Barcelona gildir til tveggja ára. Í samningnum er klásúla sem gerir hann falan fyrir 100 milljónir evra en Agüero kemur frítt til Barcelona þar sem að samningur hans við City rennur út nú í sumar.

Agüero, sem er 32 ára gamall, kom inn á sem varamaður í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um helgina, þegar City varð að sætta sig við 1-0 tap. Þó að hann hafi ekki orðið Evrópumeistari með liðinu hefur hann unnið fjölda titla með liðinu, til að mynda fimm Englandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil og sex deildabikarmeistaratitla.

Agüero kom til City árið 2011 en hafði áður leikið með Atlético Madrid í fimm tímabil á Spáni, þar sem hann vann meðal annars Evrópudeildina árið 2010.

Fjölmiðlamaðurinn og skúbbkóngurinn Fabrizio Romano segir á Twitter að næst á dagskrá hjá Barcelona sé að fá Eric Garcia aftur frá City og gera samning við miðvörðinn sem gildi til 2026. Samningur við Georginio Wijnaldum, til 2024, er tilbúinn og Hollendingurinn á aðeins eftir að gangast undir læknisskoðun sem gæti reyndar dregist fram yfir EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×