Fótbolti

Håland að missa þolin­mæðina hjá Dort­mund

Anton Ingi Leifsson skrifar
Håland grýtti treyjunni í jörðina og strunsaði inn í klefa eftir jafntefli helgarinnar.
Håland grýtti treyjunni í jörðina og strunsaði inn í klefa eftir jafntefli helgarinnar. Alex Gottschalk/Getty

Erling Braut Håland, norski framherji Dortmund, mun yfirgefa þýska félagið ef þeir ná ekki að tryggja sér Meistaradeildarsæti á yfirstandandi leiktíð.

Spænski miðillinn AS greinir frá þessu en Dortmund glutraði niður enn einum stigunum um helgina er liðið gerði 2-2 jafntefli við FC Köln.

Eftir leikinn strunsaði sá norski niður í klefa og grýtti af sér treyjunni en myndbandið var ansi vinsælt meðal fótbolta áhugamanna um helgina.

Norðmaðurinn hefur skorað 33 mörk í 31 leik á þessari leiktíð og hann er ekki tilbúinn að vera áfram í Þýskalandi ef þeir gulklæddu verða ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

Þeir eru sem stendur fjórum stigum á eftir Frankfurt sem er í fjórða sætinu en átta umferðir eru eftir af þýsku deildarkeppninni.

Håland er meðvitaður um það að hann þurfi að spila í bestu deild heims, Meistaradeildinni, til að verða áfram talinn á meðal þeirra bestu.

Mino Raiola, umboðsmaður Håland, er sagður meðvitaður um þá ákvörðun Håland að hann óski þess að fara frá Þýskalandi endi Dortmund ekki í fjórum efstu sætunum.

Dortmund er þó komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar en þar mæta þeir Pep Guardiola og lærisveinum í Man. City. City er eitt af liðunum sem sá norski hefur verið orðaður við ásamt Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×