Sport

Osaka vann sinn fjórða ris­a­titil með öruggum sigri fyrir framan tæp­lega 7500 manns

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Öruggur sigur Osaka í dag og fjórði risatitillinn í höfn.
Öruggur sigur Osaka í dag og fjórði risatitillinn í höfn. Quinn Rooney/Getty Images

Hin 23 ára gamla Naomi Osaka vann í dag sinn fjórða risatitil á ferlinum er hún vann Jennifer Brady í úrslitum Opna ástralska meistaramótsins í tennis. Er þetta í annað sinn sem hún vinnur Opna ástralska.

Osaka lagði grunninn að sigri á mótinu með því að leggja tennisdrottninguna sjálfa Serenu Williams í undanúrslitum. Sigur Osaka var einkar öruggur en hún vann fyrra sett dagsins 6-4 og það síðara 6-3.

Osaka var auðmjúk er hún talaði við áhorfendur – já það voru áhorfendur leyfðir á úrslitaleiknum sjálfum – að leik loknum. Alls voru 7477 áhorfendur á leiknum.

„Jennifer, ég vill óska þér til hamingju. Eftir að við mættumst á Opna bandaríska meistaramótinu sagði ég öllum að þú myndir ná langt og ég hafði rétt fyrir mér. Að sjá þig vaxa undanfarna mánuði hefur verið frábært. Ég veit að fjölskyldan þín er mjög stolt af þér og ég veit að við eigum eftir að mætast aftur.“

„Ég vil svo þakka liðinu mínu, þessi er fyrir ykkur. Að lokum vil ég þakka ykkur, takk fyrir að koma og horfa. Að fá þessa orku skiptir miklu máli. Takk kærlega fyrir að opna hjörtu ykkar og bjóða okkur velkomin. Það eru forréttindi að fá að keppa um risatitil núna og ég vil þakka ykkur fyrir þetta tækifæri,“ sagði Naomi Osaka, sigurvegari Opna ástralska meistaramótsins í tennis, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×