Fótbolti

Segja Real búið að gefast upp á við­ræðunum við Ramos

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ramos gæti verið farinn frá Real í sumar.
Ramos gæti verið farinn frá Real í sumar. David S. Bustamante/Soccrates/Getty Images

Sergio Ramos mun yfirgefa Real Madrid í sumar. Þetta er talið nokkuð ljóst eftir að miðvörðurinn hefur hafnað tveimur samningstilboðum frá spænska risanum.

Fimmtán ára vera Ramos hjá Real er senn á enda. Samningur hans við félagið rennur út í sumar og samningaviðræðurnar hafa ekki skilað tilætluðum árangri.

Spænski blaðamaðurinn Siro Lopez sagði í samtali við Mundo Deportivo að Ramos hefði hafnað tveggja ára samningi Real en hann átti að taka á sig tíu prósent launalækkun.

Ramos hafnaði einnig einungis eins árs samningi með sömu launum og hann er á í dag en hann er ekki talinn vilja eins árs samning.

Nú segja fréttir frá Spáni að Real ætli ekki að bjóða varnarmanninum nýjan samning en hann er nú á meiðslalistanum eftir aðgerð á hné sem hann varð fyrir í leiknum gegn Athletic Bilbao þann 14. janúar.

Líkur eru á að hann snúi aftur í apríl en allt útlit er fyrir að það verði hans síðustu leikir fyrir félagið. David Alaba, miðvörður Bayern Munchen, gæti verið arftaki Ramos hjá félaginu.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×