Innlent

Valkvæðar aðgerðir, rannsóknir og tannlækningar hefjast aftur 4. maí

Kjartan Kjartansson skrifar
Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna þriðjudaginn 21. apríl 2020.
Alma D. Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna þriðjudaginn 21. apríl 2020. Lögreglan

Heilbrigðisráðherra ætlar að staðfesta fyrirmæli landlæknis um að takmörkunum á valaðgerðir, rannsóknir þeim tengdum og tannlækningar verði aflétt mánudaginn 4. maí þegar byrjað verður að slaka á sóttvarnaaðgerðum gegn kórónuveirufaraldrinum.

Búist er við því að ráðherra birti auglýsingu um hvernig byrjað verður að aflétta takmörkunum vegna faraldursins í dag eða á morgun. Alma D. Möller, landlæknir, sagði að þar muni koma fram að hægt verði að byrja aftur valkvæðar aðgerðir, rannsóknir sem tengjast þeim og tannlækningar sem hafa verið takmarkaðar undanfarnar vikur á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag.

Vísaði Alma til þess að faraldurinn sé nú í rénun og að álag á heilbrigðiskerfið fari minnkandi. Hún hafi ráðfært sig við forstjóra Landspítalans og sjúkrahússins á Akureyri sem telji báðir óhætt að hefja þessar aðgerðir aftur með þeim fyrirvara að ekkert óvænt gerist með faraldurinn í millitíðinni.

Beindi landlæknir þeim tilmælum til lækna að þeir settu sig í samband við skjólstæðinga sína og um að meta hverjir þeirra hafi mesta þörf fyrir meðferð, aðgerð eða rannsókn svo að þeir fái þjónustuna fyrstir.

Miklir biðlistar eftir valkvæðum aðgerðum mynduðust í verkföllum heilbrigðisstarfsfólks árið 2015 sem tók langan tíma að vinda ofan af. Alma sagði á fundinum að hún væri ekki viss um að biðlistar hafi endilega lengst í ástandinu nú vegna þess að fólk hafi ekki komist í skoðun til að komast á biðlista eftir aðgerð. Hugur sé í forstjórum sjúkrahúsanna að hefja aðgerðir aftur til þess að biðlistar verði ekki lengri en þörf krefur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×