Fótbolti

Fabregas kórónaði magnaða endurkomu Monaco gegn PSG

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Cesc Fabregas var hetjan í Monaco í kvöld.
Cesc Fabregas var hetjan í Monaco í kvöld. vísir/getty

Það var boðið upp á toppslag í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar meistararnir í PSG heimsóttu Monaco.

Franska ofurstjarnan Kylian Mbappe hóf feril sinn í frönsku úrvalsdeildinni með Monaco og hann kunni vel við sig á sínum gamla heimavelli því Mbappe skoraði tvö fyrstu mörk leiksins og sá til þess að Parísarliðið fór með 0-2 forystu í leikhléið. 

Þjóðverjinn Kevin Volland vildi ekki vera minni maður og svaraði með tvennu á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks. Staðan orðin 2-2 fyrir lokakaflann.

Á 84.mínútu fékk Abdou Diallo, varnarmaður PSG, að líta rauða spjaldið og vítaspyrna dæmd til heimamanna.

Á punktinn fór hinn þrautreyndi Cesc Fabregas og hann skoraði það sem reyndist sigurmark leiksins. Lokatölur 3-2 fyrir Monaco.

PSG er engu að síður á toppi deildarinnar með fjórum stigum meira en Monaco sem situr í 2.sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×