Innlent

Eðlileg sveifla milli daga sem ekki má túlka of sterkt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Tíu greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og fjölgaði þannig um sex milli daga. Sóttvarnalæknir segir þó að um sé að ræða eðlilega dagbundna sveiflu.

„Þetta eru bara sveiflur milli daga og ekkert sem við erum að túlka of sterkt. Flestir þarna eru í sóttkví, fjórir einstaklingar voru ekki í sóttkví, það er það sem við horfum mest á. Þetta eru bara tölur á svipuðu róli, þetta er ekkert sem við erum að túlka of sterkt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Fólk passi sig fram yfir jól

Framundan er helgi, auk þess sem jólin nálgast óðfluga og því má ætla að margir hyggi á verslunarferðir. Þórólfur segir að áfram sé biðlað til landsmanna að takmarka samgang sín á milli.

„Auðvitað hefur maður ákveðnar áhyggjur af því að fólk fari að safnast eitthvað mikið saman og aðeins að sleppa fram af sér beislinu. Þess vegna biðlum við til fólks að gæta vel að sér, gæta vel að fjöldatakmörkunum sem eru í gangi og passi sig, þannig að við förum ekki að fá bakslag. Það er það sem við þurfum að vera að hamra á þessa dagana, og fram að jólum. Og yfir jólin eiginlega líka.“

Færri sýni hafa verið tekin í gær og fyrradag en dagana þar áður. Þórólfur segir að getan til sýnatöku sé enn sú sama og fækkunin stafi því annað hvort af því að fólk sé síður að mæta í sýnatöku eða að færri séu einfaldlega með einkenni.

„Vonandi það síðarnefnda nú skýringin á því en við höldum áfram að hvetja alla sem eru með einkenni og minnsta grun um smit að mæta í sýnatöku.“


Tengdar fréttir

Tíu greindust innan­lands

Tíu greindust með kórónu­veiruna innan­lands í gær. Sex af þeim voru í sóttkví við greiningu.

Efast um að þriðju bylgjuna megi rekja til frönsku ferða­mannanna

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, setur spurningamerki við að tveir franskir ferðamenn sem komu til Íslands í ágúst og reyndust smitaðir af kórónuveirunni hafi verið valdur að þriðju bylgju faraldursins sem nú gengur yfir hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×