Fótbolti

Zidane segir að Bale hafi ekki viljað spila gegn City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bale sagði við Zidane að hann nennti ekki með í leikinn gegn City.
Bale sagði við Zidane að hann nennti ekki með í leikinn gegn City. Diego Souto/Getty Images

Það vakti athygli að Gareth Bale var ekki hluti af 24 manna hópi Real Madrid sem mun ferðast til Portúgal þar sem liðið mætir Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Nú hefur Zinedine Zidane – þjálfari Real – sagt að Bale hafi einfaldlega ekki viljað spila gegn City og því hafi hann verið skilinn eftir heima. Zidane vildi ekki fara út í smáatriði en það er raun öruggt að Real mun reyna að losa Walesverjann í sumar.

Það gæti reynst þrautin þyngri en Bale situr á einum stærsta samningi síðari ára. Samkvæmt Alvaro Montero, sérfræðingi Sky Sports, þá er ekkert lið í heiminum sem myndi borga Bale sömu laun og hann fær hjá Real.

Síðasta sumar var leikmaðurinn orðaður við Jiangsu Suning í Kína en ekkert varð af þeim félagaskiptum. Bale sjálfur vill helst fara aftur til Englands þar sem hann lék á sínum tíma með Southampton og Tottenham Hotspur. 

Montero telur að Bale muni einfaldlega sitja á bekknum hjá Real á þessum líka fína samning.

Nýkrýndir Spánarmeistarar Real eru 2-1 undir gegn Manchester City en liðin mætast í síðari leik 16-liða úrslita Meistaradeildarinnar annað kvöld. Að sjálfsögðu í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×