Fótbolti

Xavi líklegur til að verða næsti þjálfari Barcelona

Ísak Hallmundarson skrifar
Xavi er þessa stundina þjálfari Al-Sadd í Katar.
Xavi er þessa stundina þjálfari Al-Sadd í Katar. getty/Marcio Machado

Spænska fótboltagoðsögnin Xavi Hernanadez, sem lék með Barcelona í 17 ár, er sterklega orðaður við endurkomu til félagsins, nú sem þjálfari liðsins.

Xavi er einn sigursælasti leikmaður allra tíma en hann vann 15 stóra titla með Barcelona, þar af fjórum sinnum Meistaradeild Evrópu, auk þess að vinna þrjú stórmót með spænska landsliðinu, tvisvar EM og einu sinni HM.

Xavi er sagður hafa samþykkt samningstilboð frá Barcelona upp á 5,4 milljónir punda. Hann myndi þá taka við stjórnartaumunum í lok þessa tímabils. 

Talið er að Lionel Messi og liðsfélagar hans í Barca yrðu ánægðir með þessa ráðningu en Messi og Xavi spiluðu auðvitað saman með liðinu í rúm tíu ár.

Xavi hafnaði tilboði frá Barcelona í janúar og var Quique Setién ráðinn í stjórastólinn. Eftir dapurt gengi Barcelona undir stjórn Setién er Xavi sagður vilja freista þess að snúa genginu við og stýra Barcelona inn í nýtt gullaldarskeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×