Innlent

Ríflega þrjú hundruð skjálftar síðan í morgun

Sylvía Hall skrifar
Fyrsti skjálftinn var 3,5 að stærð við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga.
Fyrsti skjálftinn var 3,5 að stærð við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Veðurstofa Íslands

Jarðskjálftahrinan sem hófst um klukkan átta í morgun hefur tekið sig upp að nýju og hafa ríflega þrjú hundruð skjálftar orðið á svæðinu síðan í morgun. Tveir skjálftar urðu rétt fyrir klukkan átta í kvöld.

Fyrsti skjálftinn var 3,5 að stærð við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Töluvert var um eftirskjálfta en það dró úr hrinunni upp úr hádegi. Í kvöld tók hún sig svo aftur upp að nýju.

Sjá einnig: Annar skjálfti við Fagradalsfjall



Fyrsti skjálftinn í kvöld varð klukkan 19:48 og mældist hann 3,6 að stærð og fyldi annar jafn stór skjálfti í kjölfarið klukkan 19:57. Klukkan 20:13 mældist svo skjálfti 3,4 að stærð og og tveir aðeins minni klukkan 20:15 og 20:17 sem voru báðir 3 að stærð.

Tilkynningar um skjálftann hafa borist frá Akranesi, Grindavík, Keflavík, höfuðborgarsvæðinu og öðrum byggðum í grennd við Fagradalsfjall. Í morgun hafði einnig borist tilkynning frá Hellu vegna skjálftans.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að jarðskjálftar séu algengir á svæðinu. Um sex hundruð skjálftar urðu í jarðskjálftahrinu þar 25. til 27. júlí árið 2017 og mældist stærsti skjálftinn 4. Elísabet Pálmadóttir, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í dag að svæðið væri virkt jarðsvæði og ekki sé um óeðlilega mikla virkni að ræða.


Tengdar fréttir

Skjálfti að stærð 3,5 mældist við Fagradalsfjall

Nokkrir smærri skjálftar mældust í aðdraganda hans og hafa fylgt honum en samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu.

Annar skjálfti við Fagradalsfjall

Skjálfti að stærðinni 3,9 mældist nú skömmu fyrir átta tæplega þrjá kílómetra suðaustur af Fagradalsfjalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×