Innlent

Ekið á gangandi vegfaranda á Lambhagavegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá slysstað á Lambhagavegi í kvöld.
Frá slysstað á Lambhagavegi í kvöld. Vísir/Jói K.
Ekið var á gangandi vegfaranda á Lambhagavegi skammt frá líkamsræktarstöðinni Reebok-fitness í Grafarholti á áttunda tímanum í kvöld. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl en slysið var alvarlegt, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Varðstjóri segir þrjá sjúkrabíla hafa verið senda á slysstað þegar tilkynning barst um klukkan hálf átta. Hann gat ekki veitt frekari upplýsingar um líðan hins slasaða.

Að sögn sjónarvotts var fjöldi lögreglubíla og -mótorhjóla send á vettvang en einnig var óskað eftir aðstoð tæknideildar lögreglu. Þá var veginum lokað á meðan sjúkraflutningamenn athöfnuðu sig á slysstað.

Í tilkynningu frá lögreglu, sem send var út á tíunda tímanum, segir að slysið hafi verið alvarlegt. Rannsókn þess sé á frumstigi en ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð klukkan 21:35 eftir að tilkynning barst frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.Vísir/Jói K.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×