Fótbolti

La Liga íhugar að kæra FIFA

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Infantino og Guðni Bergsson horfðu saman á leik Íslands og Argentínu á HM í sumar. Guðni var líklega ekki að ræða við hann um hvort leikir í Pepsi deildinni mættu fara fram í Rússlandi.
Infantino og Guðni Bergsson horfðu saman á leik Íslands og Argentínu á HM í sumar. Guðni var líklega ekki að ræða við hann um hvort leikir í Pepsi deildinni mættu fara fram í Rússlandi. Vísir/Getty
Forráðamenn La Liga deildarinnar hafa hótað því að kæra alþjóðaknattspyrnusambandið til íþróttadómstólsins ætli sambandið sér að standa í vegi fyrir því að leikur í La Liga verði leikinn í Bandaríkjunum.

Undanfarna mánuði hafa verið uppi á borði áætlanir um að leikur í spænsku deildinni fari fram í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mótmæli spænska knattspyrnusambandsins og spænsku leikmannasamtakanna héldu áætlanirnar áfram í þróun og eru þær komnar svo langt að leikur Girona og Barcelona er á dagskrá í lok janúar í Miami.

Forseti FIFA, Gianni Infantino, hélt tölu á þingi FIFA í dag og sagði þar að deildarleikir ættu að fara fram í upprunalandi deildarinnar.

„Þetta mál var rætt af þinginu og þessi tillaga um leikinn í Miami sérstaklega tekin fyrir. Þingið er mjög skýrt í sínu sjónarmiði á því að leikur sem leikinn er í deild ákveðins knattspyrnusambands skuli fara fram í heimalandi þess sambands,“ sagði Infantino.

Forseti La Liga, Javier Tebas, sagði í september að hann væri 90 prósent viss um að leikurinn færi fram í Bandaríkjunum. Samkvæmt frétt breska blaðsins Independent hafa Tebas og félagar hótað því að snúa sér að íþróttadómstólnum Cas (e. Court of Arbitration for Sport) ætli FIFA sér að standa formlega í vegi fyrir framkvæmd leiksins.

„Ef við fáum formlega tilkynningu frá FIFA að þeir banni leikinmn þá munum við snúa okkur hið snarasta til íþróttadómstólsins,“ hefur Independent eftir talsmanni deildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×