Fótbolti

Xhaka: Verðum að vinna Belgana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Granit Xhaka og Alfreð Finnbogason eigast við á Laugardalsvelli í kvöld.
Granit Xhaka og Alfreð Finnbogason eigast við á Laugardalsvelli í kvöld. Vísir/EPA
Fyrirliði Sviss, Granit Xhaka, var ánægður með dagsverk sinna manna þegar Sviss bar sigurorð af Íslandi fyrr í kvöld.

„Við getum verið mjög ánægðir með sigurinn í kvöld. Við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik en betri í seinni hálfleik þó að seinustu tíu mínúturnar hafi verið taugatrekkjandi. Við hefðum getað verið rólegri í stöðunni 2-1 en við lærum af reynslunni í þessum leik en úrslitin eru það mikilvægasta í kvöld," sagði Xhaka þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann að leik loknum í kvöld.

Xhaka var ekki á því að það hafi verið erfitt að undirbúa sig andlega fyrir leikinn eftir að Sviss hafi unnið fyrri leik liðanna 6-0 enda vissu þeir að hverju þeir gengu þegar þeir mættu á Laugardalsvöllinn. 

„Það var ekki erfitt að undirbúa sig undir þennan leik þrátt fyrir fyrri úrslit. Við höfðum það í huga að það er erfitt að spila í Reykjavík enda spiluðum við hérna fyrir sex árum síðan. Við vitum að Ísland er gott lið sem er þétt varnarlega og svo spiluðu þeir mjög vel í dag þannig að við erum mjög ánægðir með að hafa náð öllum stigunum héðan“.

„Við verðum vinna leikinn við Belgana en það er úrslitaleikur fyrir okkur en bæði lið eru undir mikilli pressu á að vinna þann leik. Ég vona það allavega að við getum unnið þá í nóvember“, sagði Xhaka að lokum um framhaldið í riðlinum. Bæði Belgía og Sviss eru núna með tvo sigurleiki en Belgarnir unnu leik þjóðanna fyrir helgi og eru því í vænlegri stöðu fyrir leik liðanna í nóvember.

Tengdar fréttir

Hannes: Þurfum að horfa í frammistöðuna frekar en úrslitin

"Það var náttúrlega fullt hægt að gera í þessum mörkum sem við fengum á okkur“, sagði markvörður Íslands, Hannes Þór Halldórsson, þegar hann var spurður að því hvort eitthvað hefði verið hægt að gera í mörkunum sem Ísland fékk á sig og hvernig leikurinn hafi litið út frá hans bæjardyrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×